Gul tónleikaröð
Helena_Juntunen_stor
 • 2.2.2012 19:30
 • Harpa
 • Frá 2.000 kr. til 6.500 kr.
 • Kaupa miða

Osmo stjórnar Mahler

Magnþrungin örlög frá Mahler og Vänskä

Það voru fagnaðarfundir þegar Osmo Vänskä stýrði Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir skömmu eftir langa fjarveru. Það var Osmo sem hélt um tónsprotann þegar SÍ lék í Carnegie Hall í fyrsta sinn árið 1996 og mál manna að hljómsveitin leiki sjaldan betur en undir hans stjórn.

Á fyrstu tónleika sína í Hörpu hefur hann valið hina magnþrungnu sjöttu sinfóníu Mahlers, sem er samin fyrir risavaxna hljómsveit og eitt áhrifamesta verk höfundarins. Sinfónían veitir innsýn í heim ógnar og óreiðu; tónlistin er kraftmikil en dökk, eins og skuggi dauðans sé hvarvetna nálægur. Skömmu síðar lést dóttir Mahlers úr skarlatssótt og sjálfur greindist hann með hjartakvilla sem leiddi hann til dauða; Alma eiginkona hans var þess fullviss að með þessari átakanlegu sinfóníu hefði hann storkað örlögunum og myndi jafnvel þurfa að gjalda með lífi sínu.

Sópransöngkonan Helena Juntunen vakti fyrst verulega athygli á heimsvísu í Cardiffeinsöngvarakeppinni 2007. Hún hefur sungið við Finnsku þjóðaróperuna um árabil og hefur einnig komið fram við helstu óperuhús meginlandsins. Osmo Vänska valdi hana til að syngja Luonnotar eftir Sibelius á tónleikum með Lundúnafílharmóníunni og Juntunen stal senunni: „Hún er náttúruafl“, stóð í The Times eftir tónleikana; aðrir tóku í sama streng og töluðu um „hreina opinberun“.

Alban Berg samdi fjölda sönglaga meðan hann var í tónsmíðanámi hjá Arnold Schönberg á árunum 1905–08. Löngu síðar valdi Berg sjö eftirlætis lögin sín, af þeim nærri 90 sem hann samdi á þessum árum, og gaf yfirskriftina Sjö æskusöngvar. Lögin eru hrífandi fögur, í einfaldleika sínum og má greina áhrif bæði frá Debussy og Richard Strauss.

 • Stjórnandi
  Osmo Vänskä
 • Einsöngvari
  Helena Juntunen
 • Efnisskrá
  Alban Berg: Sieben frühe Lieder
  Gustav Mahler: Sinfónía nr. 6

SendaMennta- og menningarmálaráðuneyti Reykjavíkurborg

Gamma