Gul tónleikaröð
Christine_Schafer_stor
 • 14.6.2012 19:30
 • Harpa
 • Frá 2.000 kr. til 6.500 kr.
 • Kaupa miða

Mozart og Schäfer

Sungið af Hátindinum

Christine Schäfer er ein dáðasta sópransöngkona Þýskalands. Í meira en áratug hefur hún sungið á öllum helstu óperuhúsum heims; hefur m.a. sungið öll stóru Mozarthlutverkin á Salzburgar-hátíðinni, og nýverið söng hún hlutverk Sophie í Rosenkavalier í Metropolitan-óperunni þar sem hún þurfti að verjast ágengni Kristins Sigmundssonar í hlutverki Ochs baróns. Hún hlaut Gramophone-verðlaunin fyrir hljómdisk sinn með sönglögum Schumanns, og meðal nýjustu diska hennar eru aríur Bachs fyrir Deutsche Grammophon, þar sem hún kemur fram ásamt Hilary Hahn. Meðal nýlegra sigra henna á óperusviðinu eru hlutverk Víólettu í La Traviata við Garnier-óperuna í París, og Konstansa í Brottnáminu úr kvennabúrinu við Berlínaróperuna.

Á næstu mánuðum mun Schäfer m.a. syngja Mahler með Fílharmóníuhljómsveit Berlínar og Brahms í Los Angeles undir stjórn Gustavos Dudamel, en á fyrstu tónleika sína á Íslandi hefur hún valið aríur eftir Mozart, meðal annars hina yndisfögru aríu Donnu Önnu úr óperunni Don Giovanni. Þá mun hún einnig flytja stórmerkan lagaflokk Albans Berg við ljóð eftir Peter Altenberg, sem aldrei fyrr hefur hljómað hér á landi.

Auk þess hljóma á tónleikunum tvö hljómsveitarverk. Adagio eftir Jón Nordal var frumflutt á Sinfóníutónleikum árið 1966 og hefur allar götur síðan þótt eitt hans allra besta verk: fágað, ljóðrænt og heilsteypt. Það er auk þess í uppáhaldi hjá nýjum aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitarinnar sem óskaði sérstaklega eftir því fá að stjórna því á fyrsta ári sínu við stjórnvölinn.

Ófullgerða sinfónía Schuberts er síðan lokapunkturinn aftan við starfsár hljómsveitarinnar að þessu sinni. Það hefur vakið furðu margra í gegnum tíðina að þessi stórkostlega tónsmíð, sem þó er aðeins í tveimur þáttum en ekki fjórum eins og almennt tíðkaðist með sinfóníur á 19. öld, skuli aldrei hafa hljómað meðan Schubert sjálfur lifði. Það var ekki fyrr en árið 1865, heilum 37 árum eftir að tónskáldið féll frá, sem tónlistarmenn í Vínarborg létu svo lítið að frumflytja hana, enda naut Schubert fremur lítillar virðingar meðan hann sjálfur lifði. Ráðgátan um hvers vegna – eða jafnvel hvort – sinfónían er „ófullgerð“ hefur aldrei verið leyst, enda skiptir það kannski ekki öllu máli. Ófullgerða sinfónían er „ólík allri annari tónlist sem áður hafði heyrst“, sagði tónlistargagnrýnandinn Michael Steinberg, og enn í dag tekst henni að lyfta hlustendum upp í æðra veldi með töfrum sínum.
 • Stjórnandi
  Ilan Volkov
 • Einsöngvari
  Christine Schäfer
 • Efnisskrá
  Jón Nordal: Adagio
  Alban Berg: Altenberg-Lieder
  W.A. Mozart: Non mi dir, úr Don Giovanni og Misera, dove son, K. 369
  Franz Schubert: Ófullgerða sinfónían

SendaMennta- og menningarmálaráðuneyti Reykjavíkurborg

Gamma