EN

21. ágúst 2016

Klassíkin okkar: Úrslit netkosningar

Óðurinn til gleðinnar hlutskarpastur

Í vor efndu Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV til netkosningar meðal landsmanna þar sem leitað var að eftirlætis tónverkum þjóðarinnar. Hægt var að velja úr lista með vinsælum klassískum verkum eða tilnefna önnur. Þau tónverk sem yrðu hlutskörpust myndu svo hljóma á sérstökum hátíðartóneikum Sinfóníunnar.

Þúsundir atkvæða féllu í kosningunni en þau tónverk sem hlutu flest atkvæði sigruðu með nokkrum yfirburðum. Athygli vekur að þau verk sem fyrir valinu urðu krefjast mörg fleiri listamanna er hljómsveitarinnar sjálfrar og því ljóst að fjöldi flytjenda á tónleikunum 2. september verður mikill. 

Efnisskrá tónleikanna er nú klár og verður sem hér segir:

Richard Wagner: Valkyrjureiðin
Johannes Brahms: Ungverskur dans nr. 5
Edvard Grieg: Í höll dofrakonungs
Carl Orff: O fortuna (úr Carmina Burana) 
Pjotr Tsjajkovskíj: Píanókonsert nr. 1, 1. kafli
J.S. Bach: Air úr Hljómsveitarsvítu nr. 3 
Antonio Vivaldi: Vorið, 1. kafli 
Maurice Ravel: Bolero 
Ludwig van Beethoven: Sinfónía nr. 9, 4. kafli (Óðurinn til gleðinnar)

2 einleikarar, 4 einsöngvarar og 3 kórar

Einleikarar á tónleikunum verða Víkingur Heiðar Ólafsson sem leikur píanókonsert Tsjajkovsíkjs nr. 1 og Sigrún Eðvaldsdóttir sem leikur Vorið úr Árstíðum Vivaldis. Tónleikunum lýkur á lokakafla 9. sinfóníu Beehtovens, Óðnum til gleðinnar. Einsöngvarar verða Þóra Einarsdóttir, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Elmar Gilbertsson og Kristinn Sigmundsson en Mótettukór Hallgrímskirkju tekur þátt í flutningnum undir stjórn Harðar Áskelssonar. Þá syngja Óperukórinn í Reykjavík undir stjórn Garðars Cortes og Söngsveitin Fílharmónía undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar O fortuna úr Carmina Burana eftir Carl Orff. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason, staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Tónleikarnir fara fram í Eldborg 2. september kl. 20. Þeir eru í tilefni 50 ára afmælis Sjónvarpsins og verða sendir beint út á RÚV. Miðasala fer fram á sinfonia.is og í miðasölu Hörpu.

Kaupa miða