EN

1. mars 2017

Sinfóníuhljómsveit Íslands í Vestmannaeyjum

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur í tónleikaferð til Vestmannaeyja með glæsilega dagskrá í farteskinu. Hljómsveitin heldur tónleika í íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum 1. mars kl. 19.30. 

Einleikari í hinum víðfræga fiðlukonserti Tsjajkovskíjs verður Sigrún Eðvaldsdóttir konsertmeistari hljómsveitarinnar, en hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason. Auk fiðlukonsertsins flytur hljómsveitin slavneskan dans eftir Antonín Dvořák, syrpu vinsælla laga eftir Eyjamanninn Oddgeir Kristjánsson, og sinfóníu nr. 4 eftir Ludwig van Beethoven.

Í för með Sinfóníuhljómsveitinni verður músin knáa Maxímús Músíkús en sívinsælt ævintýrið um Maxa og hljómsveitina verður á dagskrá á skóla- og barnatónleikum Sinfóníunnar fimmtudaginn 2. mars kl. 10:30. Sigurður Þór Óskarsson leikari er sögumaður en höfundur ævintýrsins, Hallfríður Ólafsdóttir, stjórnar hljómsveitinni.

„Það er ávallt mikil eftirvænting í loftinu þegar hljómsveitin leggur land undir fót. Þetta er auðvitað stór hópur að ferðast saman – eða yfir 70 manns og heilmikið tilstand. Það er alltaf gaman að hitta áheyrendur á þeirra heimavelli  og sumir hverjir eru dyggir hlustendur á beinar útsendingar frá tónleikum okkar á Rás 1. Eyjamenn leggja líka sitt til efnisskrár tónleikanna en hljómsveitin mun leika syrpu með lögum Oddgeirs Kristjánssonar í útsetningu Magnúsar Ingimarssonar. Við höldum einnig skólatónleika fyrir um 350 börn þar sem við segjum söguna um Maxímús Músíkús og  náum að leika fyrir sem flesta í bænum“.

Segir Arna Kristín Einarsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Ferðalagið er eins konar endapunktur tónleikaferðarinnar „Landshorna á milli“, en haustið 2015 lék Sinfóníuhljómsveitin fyrir fullu húsi á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og allir velkomnir.