EN

20. febrúar 2017

Tortelier sæmdur riddaraorðu franska lýðveldisins

Yan Pascal Tortelier, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, var sæmdur einni æðstu heiðursorðu franska lýðveldisins við hátíðlega athöfn í Lundúnum 9. febrúar síðastliðinn. Sendiherra Frakklands í Lundúnum, Sylvie Bermann, hélt ræðu við athöfnina, rakti feril Torteliers í stuttu máli og lofaði hann fyrir hlutverk sitt í að miðla franskri tónlist víða um heim. Riddaraorðan sem Tortelier hlaut nefnist Chevalier de l'Ordre national de la Légion d'honneur. Orðan er veitt þeim sem hafa með störfum sínum borið hróður Frakklands til annarra landa.

Meðal viðstaddra við athöfnina voru leiðandi persónur í bresku tónlistarlífi, meðal annars Nick Mathias, umboðsmaður Torteliers og Timothy Walker, framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi Fílharmóníuhljómsveitar Lundúna. Á meðfylgjandi mynd má sjá Örnu Kristínu Einarsdóttur, framkvæmdastjóra SÍ ásamt Tortelier að lokinni afhendingunni.