EN

Hljóðfæraleikarar

Rúnar Óskarsson

  • Deild: Klarinett
  • Netfang: runar ( @ ) askja ( . ) org
Rúnar Óskarsson klarínettuleikari hóf tónlistarnám við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar 7 ára gamall. Hann lauk kennara- og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1993 þar sem Sigurður I. Snorrason var kennari hans. Þaðan lá leiðin til Hollands þar sem Rúnar nam hjá George Pieterson við Sweelinck tónlistarháskólann og útskrifaðist þaðan með láði vorið 1996. Samhliða klarínettunáminu nam hann bassaklarínettuleik hjá Harry Sparnaay við sama skóla og lauk einleikaraprófi á bassaklarínettu vorið 1998. Rúnar sótti einnig tíma hjá Walter Boeykens við Tónlistarháskólann í Rotterdam. Síðastliðin tíu ár hefur Rúnar verið mjög virkur í íslensku tónlistarlífi. Hann hefur leikið fjölda einleiks- og kammertónleika, leikið með ýmsum hópum, s.s. Caput, Kammersveit Reykjavíkur, Hljómsveit íslensku óperunnar og tekið þátt í leikhúsuppfærslum. Fjölmörg verk hafa verið samin fyrir hann og var geisladiskurinn Monologues-Dialogues með nýrri íslenskri tónlist fyrir bassaklarínettu tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2005.