EN

Aðventutónleikar Sinfóníunnar

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
1. des. 2016 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.200 kr.
Tónleikakynning » 1. des. kl. 18:00

Á aðventutónleikum Sinfóníunnar hljómar hátíðleg tónlist eftir þrjá meistara 18. aldar: Bach, Händel og Mozart. Tvö hrífandi verk eftir Mozart ramma inn efnisskrána, fjörmikill forleikur að Brúðkaupi Fígarós og sinfónía nr. 39 sem var ein sú síðasta sem hann samdi. Glæsilegt kórverk Händels var samið til flutnings við krýningu Karólínu Bretadrottningar í Westminster Abbey árið 1727 og hefur engu glatað af hátíðleika sínum.

Hamrahlíðarkórarnir hafa komið fram á ótal tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og bjartur og tær hljómur þeirra hentar tónlist Händels sérlega vel. Einleikari á Aðventutónleikunum er Elfa Rún Kristinsdóttir sem hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim og var nýverið tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Elfa Rún hefur hlotið mikið lof fyrir flutningi sinn á verkum Bachs og nýr geisladiskur hennar með partítum meistarans hefur fengið afburða góða dóma.

Norski hljómsveitarstjórinn Eivind Aadland starfar með Sinfóníuhljómsveit Íslands á ári hverju enda sérlega innblásinn og vandvirkur listamaður sem nær frábærum árangri með hljómsveitinni í hvert sinn.

Þessir tónleikar láta engan ósnortinn og koma öllum í sannkallað hátíðarskap í upphafi aðventu. 

Sækja tónleikaskrá