EN

Bedroom Community á Airwaves

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
3. nóv. 2016 » 20:00 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 4.500 kr.
  • Efnisskrá

    Daníel Bjarnason Emergence 3
    Nico Muhly Mixed Messages
    Valgeir Sigurðsson No Nights Dark Enough
    Daníel Bjarnason og Ben Frost Reyja
    Nico Muhly Keep In Touch

  • Hljómsveitarstjóri

    André de Ridder

  • Einleikari

    Nadia Sirota

 

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Iceland Airwaves-tónlistarhátíðinni verða heimskunnir listamenn tengdir Bedroom Community-útgáfunni í forgrunni, en hún hefur aðsetur í Breiðholti og starfar undir forystu Valgeirs Sigurðssonar. Á tónleikunum verða m.a. leikin hljómsveitarverk eftir nokkur af áhugaverðustu tónskáldum yngri kynslóðarinnar í dag, sem öll hafa náð athygli heimsins. Nico Muhly er eitt frægasta tónskáld Bandaríkjanna af sinni kynslóð og vinnur nú að nýrri óperu fyrir Metropolitan-óperuna í New York. Verk hans, Mixed Messages, var samið fyrir Philadelphia-hljómsveitina og frumflutt undir stjórn Yannick Nézet-Séguin. Keep in Touch samdi Nico fyrir bandaríska víóluleikarann Nadiu Sirota sem er meðlimur í tónlistarhópnum Alarm Will Sound og hefur hlotið ótal verðlaun fyrir flutning sinn á nýrri tónlist. Emily Hall er eitt áhugaverðasta tónskáld Bretlandseyja og hefur meðal annars samið óperuna Folie a Deux í samstarfi við íslenska skáldið Sjón. Valgeir Sigurðsson hefur getið sér einkar gott orð sem tónskáld undanfarin ár. Hér hljómar hljómsveitarverk hans No Nights Dark Enough.

Auk þess leikur Sinfóníuhljómsveitin hið glæsilega verk Emergence eftir Daníel Bjarnason, en SÍ frumflutti það árið 2011 og síðan hefur það hljómað víða um heim. Þá koma fram söngvararnir Emily Hall, Puzzle Muteson, Jodie Landau og Sam Amidon og flytja eigin tónlist inn á milli hljómsveitarverkanna. Einnig kemur fram ástralska tónskáldið Ben Frost sem hefur verið búsettur á Íslandi um árabil.

Þessir tónleikar eru einstakt tækifæri til að kynna sér fjölbreytta flóru nýrrar tónlistar af ýmsu tagi, í flutningi fyrsta flokks listamanna á heimsmælikvarða. Stjórnandi er hinn þýski André de Ridder, sem sérhæfir sig í túlkun nýrrar tónlistar og hefur áður komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands við frábærar undirtektir.

Heildarefnisskrá tónleikanna: 

 

Paul Corley: Da Chuna
Emily Hall: Mantra
Nico Muhly: Mixed Messages
Puzzle Muteson: En Garde
Ben Frost: Leo Needs a New Pair of Shoes
Nico Muhly: Keep in Touch
Jodie Landau: An Invitation
Valgeir Sigurðsson: úr No Nights Dark Enough:
- infamy sings
- and fear and grief and pain

Valgeir Sigurðsson: For Love of Her
Daníel Bjarnason og Ben Frost: úr Solaris
- Reyja
Sam Amidon: I See the Sign
Sam Amidon: Saro
Daníel Bjarnason: Emergence
- Silence
- Black Breathing
- Emergence
 

Sækja tónleikaskrá