EN

Einleikstónleikar Paul Lewis

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
4. feb. 2018 » 17:00 » Sunnudagur Norðurljós | Harpa 3.900 kr.

Paul Lewis er einn fremsti píanisti samtímans og það er sannkallað fagnaðarefni að hann haldi einleikstónleika í Norðurljósum í heimsókn sinni til Íslands en hann leikur Keisarakonsert Beethovens með hljómsveitinni 1. febrúar. Á einleikstónleikunum leikur hann verk eftir þrjá meistara tónlistarinnar í Vínarborg á 18. og 19. öld – Haydn, Beethoven og Brahms – og eru þeir liður í viðamiklu tónleikahaldi hans um þessar mundir þar sem hann leikur verk þessara þriggja meistara m.a. í Lundúnum, Brussel, Flórens, Tókýó, Melbourne og Vancouver.

Um efnisskrána segir Lewis sjálfur: „Píanósónötur Haydns hafa að geyma margt af því frumlegasta og skemmtilegasta í gjörvöllum píanóbókmenntunum. Það eru ekki mörg tónskáld sem geta fengið áheyrendur til að skella upp úr en Haydn er eitt þeirra, kemur sífellt á óvart í tónlist sinni. Brahms blandar í verkum sínum saman villtri ástríðu og fullkominni fagmennsku tónsmíðameistarans; honum tekst í tónlistinni að gefa jafnvel hamslausri tilfinningu yfirvegaðan blæ. Bagatellur Beethovens eru brú milli þessara tveggja heima; í sumum þeirra má greina kímnigáfu Haydns en í öðrum heyrist fyrirboði þeirrar rómantíkur sem einkennir Brahms.“ 

Sækja tónleikaskrá