EN

Andreas Ottensamer

Klarínettleikari

 

Hinn austurríski Andreas Ottensamer er af mikilli tónlistarætt og hóf snemma tónlistarnám, fyrst á píanó, síðar á selló og enn síðar skipti hann alfarið yfir í klarínettið. Klarínettið má segja að sé fjölskylduhljóðfæri Ottensamer-ættarinnar, faðir hans var fyrsti klarínettleikari Fílharmóníusveitarinnar í Vín og bróðir hans starfar þar í dag.

Andres Ottensamer lék um tíma með hljómsveit Ríkisóperunnar í Vín og með Fílharmóníusveit borgarinnar, auk þess að leika með Gustav Mahler-ungmennahljómsveitinni. Árið 2009 hóf hann störf með Hljómsveitarakademíu Fílharmóníusveitarinnar í Berlín, sem starfrækt er fyrir ungt framúrskarandi tónlistarfólk, nú er Ottensamer fyrsti klarínettleikari Fílharmóníusveitarinnar sjálfrar.

Ottensamer hefur unnið til verðlauna í ýmsum tónlistarkeppnum, hann kemur fram sem einleikari með hljómsveitum víða um heim, svo sem Fílharmóníusveitunum í Berlín, Vín, Rotterdam og Bremen. Hann hefur unnið með stjórnendum á borð við Simon Rattle, Yannick Nezét-Séguin, Andris Nelsons og Pablo Heras Casado. Ottensamer er einnig áhugasamur kammermúsíkant og hefur starfað á þeim vettvangi með Murray Perahia, Leif Ove Andsnes, Leonidas Kavakos og Yoy-Yo Ma. Hann er listrænn stjórnandi Bürgenstock-tónlistarhátíðarinnar í Sviss, ásamt píanóleikaranum José Gallardo.

Í febrúar 2015 gerði Ottensamer samning við útgáfufyrirtækið þekkta Deutsche Grammophon, fyrstur einleikara á klarínett til að gera slíkan samning. Hann hefur gefið út fjóra geisladiska hjá fyrirtækinu. Fyrir geisladiskinn Brahms – The Hungarian Connection hlaut Ottensamer Echo-Classic- verðlaunin sem einleikari ársins árið 2015. Ári síðar gaf hann út geisladisk með föður sínum og bróður, en klarínetttríó sitt nefna þeir The Clarinotts. Nýjasti geisladiskur Ottensamer kom út hjá Decca-útgáfunni.