EN

Baiba Skride

Fiðluleikari

Lettneski fiðluleikarinn Baiba Skride hefur leikið með flestum helstu hljómsveitum heims, meðal annars Berlínarfílharmóníunni, Gewandhaus-hljómsveitinni í Leipzig, Sinfóníuhljómsveitunum í Boston og Chicago, Fílharmóníusveit New York, Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam og þannig mætti lengi telja. Meðal stjórnenda sem hún starfar hvað tíðast með má nefna Andris Nelsons, Santtu-Matias Rouvali, Marin Alsop og Yannick Nézet-Seguin.

Á liðnu tónleikaári kom Skride meðal annars fram í Evrópuferð Sinfóníuhljómsveitarinnar í Boston, þar sem leikið var í Elbphilharmonie í Hamborg, á Proms-tónlistarhátíðinni í Royal Albert Hall, Musikverein í Vínarborg og Fílharmóníunni í París. Þá lék hún einnig með sinfóníuhljómsveitunum í Birmingham, Ósló, Helsinki og Gautaborg. Vorið 2019 frumflutti hún nýjan fiðlukonsert eftir Sebastian Currier og hún hefur margsinnis leikið verk Gubaidulinu, Offertorium og Þríkonsertinn sem hljómar á Íslandi, á undanförnum árum.

Baiba Skride er einnig eftirsóttur flytjandi kammertónlistar. Hún lék nýverið í Wigmore Hall í Lundúnum undir merkjum Skride-kvartettsins, en í honum eru meðal annars Lauma systir hennar og sellóleikarinn Harriet Krijgh. Hún hefur leikið inn á fjölda geisladiska, meðal annars fiðlukonserta Bartóks með Eivind Aadland og bandaríska fiðlukonserta ásamt Santtu-Matias Rouvali.

Skride fæddist í Riga og tilheyrir tónlistarfjölskyldu. Faðir hennar er kórstjóri og móðir hennar píanóleikari auk þess sem tvær systur hennar hafa einnig lagt tónlistina fyrir sig. Hún hreppti fyrstu verðlaun í Queen Elisabeth-keppninni í Brussel árið 2001 og í kjölfarið vakti hún heimsathygli fyrir leik sinn. Hún leikur á Stradivarius-fiðlu frá árinu 1724 sem áður var í eigu ísraelska fiðluleikarans Yfrah Neaman.