EN

Boris Belkin

Fiðluleikari

 

Boris Belkin hóf fiðlunám sex ára gamall og kom fyrst fram með hinum fræga hljómsveitarstjóra Kyrill Kondrashin á áttunda ári. Hann stundaði nám við Tónlistarháskólann í Moskvu og kom á námsárunum fram með fremstu hljómsveitum heimalandsins vítt og breitt um Sovétríkin. Árið 1973 vann hann 1. verðlaun í sovésku þjóðarkeppninni fyrir fiðluleikara.

Belkin settist að í Ísrael árið 1974 og hefur síðan þá unnið reglulega með helstu hljómsveitum og hljómsveitarstjórum heimsbyggðarinnar, þar á meðal Bernstein, Ashkenazy, Mehta, Maazel, Muti, Ozawa, Kurt Sanderling, Temirkanov, Dohnányi, Tennstedt, Rattle, Haitink og Welser-Möst. Af hljómsveitum má nefna sinfóníuhljómsveitirnar í Boston og  Cleveland, fílharmóníuhljómsveitirnar í Berlín og Los Angeles, Ísraelsfílharmóníuna, Bæversku útvarpshljómsveitina, Konunglegu Concertgebouw-hljómsveitina í Amsterdam og helstu hljómsveitir á Bretlandi. Þá er Belkin atkvæðamikill á sviði kammertónlistar og leikur reglulega með mönnum á borð við Yuri Bashmet, Mischa Maisky og Georges Pludermacher svo dæmi séu tekin.

Boris Belkin hefur komið fram í nokkrum sjónvarpsþáttum, m.a. í mynd um Jean Sibelius þar sem hann lék fiðlukonsert tónskáldsins með Sænsku útvarpshljómsveitinni undir stjórn Vladimirs Ashkenazy. Þá spilaði hann fiðlukonsert Tsjajkovskíjs með Leonard Bernstein og Fílharmóníuhljómsveitinni í New York, Tzigane eftir Ravel með Frönsku þjóðarhljómsveitinni og Bernstein sem og fiðlukonserta eftir Mozart og Paganini með Concertgebouw-hljómsveitinni undir stjórn Bernards Haitink.

Fyrsta hljóðritun Belkins, þar sem hann lék 1. fiðlukonsert Paganinis fyrir Decca-hljómpötuútgáfuna ásamt Ísraelsku fílharmóníunni og Zubin Metha, var lofuð í hástert. Síðan þá hefur hann leikið marga af helstu fiðlukonsertum tónbókmenntanna fyrir Decca- og Denon-útgáfurnar, þar á meðal konserta Tsjajkovskíjs, Sibeliusar, Bruchs, Glazúnovs og Prokofíevs sem og fyrsta fiðlukonsert Schostakovitsj og A-dúr konsert og Sinfonia Concertante eftir Mozart. Þá hefur Belkin hljóðritað sónötur Brahms með píanóleikaranum Michel Dalberto.

Boris Belkin hefur haldið námskeið (masterclass) í hinum virta sumarskóla Accademia Chigiana í Siena á Ítalíu síðan 1985.