EN

Einar Jóhannesson

Klarínettleikari

 

Einar Jóhannesson hefur um árabil verið áberandi persónuleiki í íslensku tónlistarlífi. Hann er afburða klarínettuleikari og hefur leikur hans, tækni, tónn og persónuleg túlkun löngum hrifið áheyrendur og hvatt tónskáld til dáða. Mörg af helstu tónskáldum þjóðarinnar hafa skrifað fyrir hann stór verk og smá og meðal þeirra er að finna klarínettukonserta eftir Jón Nordal, Jón Ásgeirsson, Svein Lúðvík Björnsson, John Speight, Karólínu Eiríksdóttur og Áskel Másson.

Einar hefur leikið inn á fjölmarga geisladiska sem einleikari og kammermúsíkant. Á nýjustu þremur plötunum er að finn ágætan þverskurð af fjölbreyttu efnisvali Einars. Music for Clarinet hefur að geyma verk Áskels Mássonar fyrir klarínettu eina og í ýmsum hljóðfærasamsetningum, Exultavit inniheldur verk fyrir  klarínettu og orgel og á diskinum Klarínettukonsertar leikur Einar verk eftir Mozart, Weber, Debussy og Jón Nordal með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Einar Jóhannesson fæddist í Reykjavík og nam klarínettuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Gunnari Egilson og í The Royal College of Music í London, þar sem kennarar hans voru Bernard Walton og John McCaw. Þar vann hann til hinna virtu Frederick Thurston verðlauna. Árið 1976 vann Einar samkeppni um þáttöku í „Live Music Now“ sem Sir Yehudi Menuhin stofnaði, og hlaut síðar Sonning-verðlaunin fyrir unga norræna einleikara.

Hann er tíður gestur á tónlistarhátíðum víða um heim og hefur leikið fyrir útvarps og sjónvarpsstöðvar margra landa. Einar hefur frumflutt fjölda verka sem eru sérstaklega skrifuð fyrir hann - jafnt einleikskonserta, kammerverk og verk fyrir einleiksklarínettu. Einar var 1. klarínettuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá 1980–2012. Hann er stofnfélagi Blásarakvintetts Reykjavíkur sem hefur getið sér gott orð á alþjóðlegum vettvangi og lék með Kammersveit Reykjavíkur um árabil. Hann er einnig félagi í miðaldasönghópnum Voces Thules.