EN

Herdís Mjöll Guðmundsdóttir

Fiðluleikari

Herdís Mjöll er fædd árið 1997 og hóf tónlistarnám sitt þegar hún var fjögurra ára gömul í Allegro Suzukiskólanum. Þaðan fór hún í Tónlistarskólann í Reykjavík en stundar nú nám við Listaháskóla Íslands á diplomabraut undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur og Sigrúnar Eðvaldsdóttur. Herdís hefur leikið með Ungsveit Sinfóníunnar síðastliðin sex ár ásamt öðrum hljómsveitum en var síðasta haust konsertmeistari Ungsveitarinnar. Hún hefur tekið þátt í mörgum námskeiðum bæði á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum, m.a. Harpa International Music Academy og Valdres Sommersynfoni í Noregi, auk þess sem hún tók þátt í Chautauqua Summer Music Festival í New-York fylki síðastliðið sumar. Hún hefur sótt meistaranámskeið meðal annars hjá Stephan Barratt Due, Midori og Danwen Jiang.

Árið 2014 hlaut hún ásamt Rjómakvartettinum viðurkenninguna „besta atriði“ Nótunnar. Hún hefur einu sinni komið fram áður sem einleikari með hljómsveit. Það var eftir samkeppni í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem hún lék Poéme eftir Ernest Chausson með hljómsveit skólans.