EN
  • Janine Jansen

Janine Jansen

Fiðluleikari

Hollenska fiðlustjarnan Janine Jansen hefur verið í sviðsljósinu í meira en áratug og kemur nú til Íslands í fyrsta sinn. Hún kemur reglulega fram með helstu tónlistarmönnum heims, og má til dæmis nefna að á nýliðnu starfsári var hún staðarlistamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Lundúna og við Wigmore Hall, lék einleik með Vínarfílharmóníunni undir stjórn Sakari Oramo og fór í tónleikaferð um Asíu með Concertgebouw-hljómsveitinni undir stjórn Daniele Gatti. Þá kom hún fram á kammertónleikum m.a. með Lucas Debargue og Martin Fröst.

Hljómdiskar hennar hafa margir náð metsölu og hún hefur hljóðritað einvörðungu fyrir Decca-forlagið allt frá árinu 2003. Hljóðritun hennar á Árstíðunum fjórum vakti mikla athygli, en nýjasti diskur hennar hefur að geyma fiðlukonserta eftir Bartók og Brahms við meðleik Santa Cecilia-hljómsveitarinnar í Róm. Janine Jansen hefur hlotið ótal verðlaun fyrir leik sinn, m.a. fjögur ECHO Klassik-verðlaun, verðlaun þýskra tónlistargagnrýnenda, Concertgebouw-verðlaunin og verðlaun Royal Philharmonic Society. Hún hefur leikið við ýmis merk tilefni, nú síðast á Nóbelstónleikunum í Stokkhólmi í desember 2016. Hún leikur á Stradivarius-fiðlu frá árinu 1707.