EN

Kristinn Sigmundsson

Einsöngvari

Kristinn er einn ástsælasti söngvari íslensku þjóðarinnar fyrr og síðar og stendur nú á hátindi ferils síns. Kristinn hefur komið fram í flestum stærstu tónlistar- og óperuhúsum heims og nægir þar að nefna La Scala í Mílanó, Ríkisóperuna í Vínarborg, Þjóðaróperuhúsin í París og Metropolitan óperuna í New York. Hann hefur tekið þátt í nokkrum hljóðritunum með erlendum hljómsveitum, m.a. Töfraflautunni og Don Giovanni með hljómsveit Drottningholm-óperunnar, Mattheusarpassíu og Jóhannesarpassíu Bachs með Orchestra of the eighteenth century og Rakaranum í Sevilla með Útvarpshljómsveitinni í München. Á síðastliðnum árum hefur hann meðal annars sungið í Hollendingnum fljúgandi eftir Wagner í Strasbourg, Rínargulli Wagners í Houston og L‘amour des trois oranges eftir Prokofíev í Flórens, Don Giovanni og Brúðkaupi Figarós eftir Mozart á Raviniatónlistarhátíðinni í Chicago, 8. sinfóníu Mahlers í Cincinnati og Don Carlo í sýningum Íslensku óperunnar. Þá söng hann einnig í The Ghosts of Versailles eftir John Corigliano sem og Brúðkaupi Fígarós og Rakaranum í Sevilla í óperunni í Los Angeles.

Meðal viðurkenninga sem Kristinn hefur hlotið eru Philadelphia Opera Prize og Opernwelt-verðlaunin í Belvedere óperusöngvarakeppninni í Vínarborg árið 1983, Stämgaffeln – Det klassiska svenska fonogrampriset 1991, Íslensku tónlistarverðlaunin 1995, 2010 og 2011 og Útflutningsverðlaun Forseta Íslands 2011. Kristinn var útnefndur bæjarlistamaður Kópavogs árið 2005. Hann hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1995.