EN

Markus Poschner

Hljómsveitarstjóri

Markus Poschner er listrænn stjórnandi og aðalstjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í Bremen og Bremen Theatre. Með nýstárlegum hugmyndum að efnisskrám hefur hann náð til mikils fjölda áheyrenda og leitt mikið vaxtarskeið í sögu hljómsveitarinnar. Ásamt hljómsveitarstjórastöðunni í Bremen gegnir Poschner stöðu fyrsta gestastjórnanda hjá Fílharmóníuhljómsveitinni í Dresden og Þýsku kammerhljómsveitinni í Berlín. Poschner er framúrskarandi jasspíanisti og hefur lagt sig eftir að stjórna Vínarklassík, allt frá sinfóníum Beethovens til óperettutónlistar eftir Strauss-feðga og hefur túlkun hans vakið alþjóðlega athygli. Poschner er tónleikagestum á Íslandi að góðu kunnur en hann hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveitinni þrisvar sinnum áður, fyrst á Vínartónleikum sveitarinnar með Dísellu Lárusdóttur 2009 en síðan m.a. í Mahler-veislu með sænsku sópransöngkonunni Camillu Tilling í Hörpu árið 2011.

Poschner hefur stjórnað fjölmörgum óperuuppfærslum meðal annars við Bæversku ríkisóperuna og Kölnaróperuna en Poschner var um árabil einn af aðalstjórnendum Komische Oper í Berlín og hlaut mikið lof fyrir störf sín þar. Poschner hefur einnig stjórnað flutningi á óperunni Fidelio eftir Beethoven með Fílharmóníunni í Dresden. Hann hefur meðal annars komið fram sem gestastjórnandi hjá Fílharmóníusveitinni í München, Sinfóníuhljómsveitunum í Bamberg og Berlín og útvarpshljómsveitunum í Köln og München.

Markus Poschner er fæddur í München 1971 og nam við konservatoríið þar í borg og aðstoðaði síðar stjórnendurna Sir Roger Norrington og Sir Colin Davis. Poschner vann Þýsku hljómsveitarstjóraverðlaunin árið 2004 og þykir einn athyglisverðasti stjórnandi Þýskalands af yngri kynslóðinni. Poschner tók við stöðu heiðursprófessors í tónvísindum við tónlistarháskólann í Bremen árið 2010.