EN

Nikolai Lugansky

Píanóleikari

 

Rússneski píanóleikarinn Nikolai Lugansky er einn fremsti píanisti sinnar kynslóðar. Hann er fæddur í Moskvu árið 1972 og fimm ára gamall lék hann píanósónötu eftir Beethoven eftir heyrn, áður en hann hafði lært að lesa nótur. Hann lærði síðar við Tónlistarháskólann í Moskvu, þar sem Tatjana Nikolaeva var meðal kennara hans. Lugansky komst ungur að árum á sigurpall í hinum ýmsu píanókeppnum. Hann hlaut til dæmis silfurverðlaun í alþjóðlegu Bach-keppninni í Leipzig 1988, Rakhmanínov-keppninni í Moskvu 1990 og Tsjajkovskíj-keppninni 1994.

Lugansky hefur komið fram með flestum helstu hljómsveitum og hljómsveitarstjórum heims, meðal annars Riccardo Chailly, Kurt Masur, Valeríj Gergíev og Mikhaíl Pletnev. Árið 2016/17 lék hann alla píanókonserta Prokofíevs með Þjóðarhljómsveit Skotlands til að minnast þess að 125 ár eru liðin frá fæðingu tónskáldsins. Lugansky hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir hljómdiska sína. Hann hefur hljóðritað m.a. fyrir Deutsche Grammophon og Warner Classics en er nú samningsbundinn Naïve-forlaginu. Diskur hans með píanósónötum Rakhmanínovs vann bæði Diapason d'Or og ECHO Klassik-verðlaunin, og hljóðritun hans á píanókonsertum Griegs og Prokofíevs var valin einn af diskum mánaðarins hjá Gramophone. Lugansky var útnefndur þjóðarlistamaður Rússlands árið 2013 og er prófessor í píanóleik við Tónlistarháskólann í Moskvu.