EN

Ólafur Kjartan Sigurðarson

Einsöngvari

Ólafur nam við Söngskólann í Reykjavík hjá Guðmundi Jónssyni og Ólafi Vigni Albertssyni, við Royal Academy of Music og við Royal Scottish Academy of Music and Drama, en þaðan lauk hann mastersgráðu árið 1998. Hann var fastráðinn söngvari við Íslensku óperuna 2001-2004 og meðal hlutverka hans þar eru Scarpia, Macbeth, Papageno, tveir Fígaróar (Rossini og Mozart), Schaunard og Tarquinius.

Undanfarin ár hefur starfsvettvangur Ólafs Kjartans verið á meginlandi Evrópu, en hann hefur verið fastráðinn við óperuna í Saarbrücken frá 2008. Af fjölda mörgum hlutverkum hans á liðnum misserum eru baritónar Verdi, Puccini og Wagner hvað mest áberandi; Macbeth, Iago, Renato, Falstaff, Scarpia, Jack Rance, Telramund, Alberich, Klingsor, Hollendingurinn fljúgandi og síðast en ekki síst Rigoletto. Hann hefur einnig hlotið lof fyrir túlkun sína á Barnaba, Bláskegg, Escamillo, Gérard, Jochanaan og Tonio svo fáein hluverk séu nefnd.

Ólafur Kjartan hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, m.a. Grímuverðlaunin og áhorfendaverðlaun Opera Holland Park fyrir túlkun sína á Rigoletto og fyrir Jochanaan í Salome var hann valinn söngvari ársins við óperuna í Saarbrücken.

Af óperuhlutverkum Ólafs Kjartans nýverið má nefna Der Wanderer í Siegfried með Fílharmoníunni í Dortmund, Rigoletto, Balstrode og Falstaff við óperuna í Saarbrücken og hlutverk Hollendingsins fljúgandi við Finnsku þjóðaróperuna í Helsinki. Hann hefur einnig sungið Níundu sinfóníu Beethovens m.a. við vígslu nýrrar tónleikahallar í Lugano undir stjórn Vladimirs Ashkenazy, með Fílharmóníunni í Stuttgart og á tónleikaferð um Japan, í Tokyo, Osaka og Yokohama.