EN

Yevgeni Sudbin

Píanóleikari

Yevgeni Sudbin fæddist í Leníngrad (nú Sankti Pétursborg) árið 1980 og hóf tónlistarnám fimm ára gamall. Árið 1990 fluttist hann með fjölskyldu sinni til Þýskalands og hélt áfram tónlistarnámi við Hanns Eisler-tónlistarskólann í Berlín en færði sig síðan til Lundúna þar sem hann nam við Purcell School og síðar Royal Academy of Music.

Sudbin hefur komið fram í mörgum helstu tónleikasölum heims og leikið undir stjórn virtra hljómsveitarstjóra, svo sem Neeme Järvi, Charles Dutoit, Vladimirs Ashkenazy, Hannu Lintu, Andrews Litton og Osmo Vänskä. Hann lék alla píanókonserta Beethovens undir stjórn þess síðastnefnda með Minnesotahljómsveitinni í janúar í fyrra en af öðrum nýlegum verkefnum má nefna að í haust lék hann píanókonsert Tsjajkovskís með Fílharmóníuhljómsveit Hamborgar í hinu nýja tónlistarhúsi Elbphilharmonie í Hamborg. Framundan eru tónleikar í Berlín, Mílanó og í Wigmore Hall í Lundúnum. Auk þess að koma fram sem einleikari leikur Sudbin gjarnan kammermúsík og meðal samstarfsfólks hans á því sviði eru Alexander Chaushian, Ilya Gringolts, Hilary Hahn, Julia Fischer og Chilingirian- strengjakvartettinn.

Sudbin er rómaður fyrir túlkun sína á píanóverkum Skrjabíns og hafa hljóðritanir hans á þeim m.a. hlotið viðurkenningu tónlistartímaritsins Gramophone en ritstjóri þess lét svo um mælt að enginn píanóleikari hefði komið ólgu Skrjabíns jafn vel til skila og Sudbin. Þá hefur nýlegur diskur hans með sónötum eftir Domenico Scarlatti fengið afar góðar viðtökur. Hljóðritanir Sudbins koma út á vegum BIS-útgáfunnar.