EN

Lugansky og Tortelier

Yan Pascal Tortelier tekur við

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
8. sep. 2016 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.200 kr.

Yan Pascal Tortelier býður upp á sérlega litríka og glæsilega efnisskrá á fyrstu tónleikum sínum sem aðalhljómsveitarstjóri SÍ. Þriðji píanókonsert Rachmanínovs er einn sá kröfuharðasti sem saminn hefur verið, enda sérsniðinn að risavöxnum höndum tónskáldsins. Með kvikmyndinni Shine, þar sem glíma ástralska píanistans David Helfgott við þann þriðja var í forgrunni, komst konsertinn í hóp vinsælustu tónverka fyrr og síðar. Rússneski píanistinn Nikolai Lugansky er svo sannarlega vandanum vaxinn. Hann hreppti silfurverðlaun í Tsjajkovskíj-keppninni í Moskvu árið 1994 og skaust upp á stjörnuhimininn í kjölfarið; hann hefur komið fram í öllum helstu tónleikasölum heims auk þess sem hann leikur kammertónlist með stórstjörnum á borð við Önnu Netrebko og Joshua Bell.

Viðamesta meistaraverk Ravels er tónlist hans við ballettinn um elskendurna Dafnis og Klói, sem standa frammi fyrir óvæntum vanda þegar Klói er rænt af sjóræningjum. Á þessum tónleikum stjórnar Tortelier eftirlætisþáttum sínum úr ballettinum svo úr verður fjölbreytt og heillandi frásögn í tónum. 

Sækja tónleikaskrá