EN

Mozart og Grieg

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
27. okt. 2016 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.200 kr.
  • Efnisskrá

    W.A. Mozart Brottnámið úr kvennabúrinu, forleikur
    Edvard Grieg Pétur Gautur, svítur
    W.A. Mozart Fagottkonsert
    Georges Bizet L’Arlésienne, svítur

  • Hljómsveitarstjóri

    Yan Pascal Tortelier

  • Einleikari

    Michael Kaulartz

Tónleikakynning » 27. okt. kl. 18:00

Michael Kaulartz er nýráðinn 1. fagottleikari SÍ og hefur hann vakið mikla aðdáun tónleikagesta fyrir safaríkan tón og tjáningarríka túlkun. Nú gefst kostur á að heyra þennan þýska fagottsnilling í hlutverki einleikarans, í ljúfum og innblásnum konserti sem Mozart samdi aðeins 18 ára gamall og var hans fyrsti konsert fyrir blásturshljóðfæri.

Að öðru leyti er leikhústónlist allsráðandi á þessari efnisskrá sem Yan Pascal Tortelier, nýráðinn aðalstjórnandi SÍ, setti saman. Sprækur forleikurinn að „tyrkneskri“ óperu Mozarts um Brottnámið úr kvennabúrinu gefur tóninn, en því næst hljóma þættir úr hinni sívinsælu leikhústónlist Griegs við Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen, meðal annars Söngur Sólveigar, Morgunstemning og Í höll Dofrakonungs.

Ekki síðri er sviðsmúsík Bizets við leikritið Stúlkan frá Arles, sem sett var á svið í París árið 1872, þremur árum áður en óperan Carmen var frumsýnd. Leikritið þótti takast illa og fór af fjölunum eftir aðeins 21 sýningu. Bizet brá á það ráð að safna bestu tónlistarþáttunum saman í svítur sem náðu miklum vinsældum, svo að nafn tónskáldsins var á hvers manns vörum í Parísarborg. 

Sækja tónleikaskrá