EN

Norrænir músíkdagar

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
29. sep. 2016 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 4.100 kr.
  • Efnisskrá

    Anna Þorvaldsdóttir Aeriality
    Esa-Pekka Salonen Fiðlukonsert
    Juliana Hodkinson ...can modify / in this case / not that it will make any difference...
    Benjamin Staern Godai: Frumefnin fimm

  • Hljómsveitarstjóri

    Daniel Raiskin

  • Einleikarar

    Akiko Suwanai
    Aart Strootman

Norrænir músíkdagar eru haldnir á Íslandi 29. september til 1. október og hefjast með glæsilegum hljómsveitartónleikum þar sem fjögur nýleg úrvalsverk hljóma. Fiðlukonsert Esa-Pekka Salonen frá árinu 2009 er eitt af lykilverkum þessa finnska tónsnillings. Alex Ross, gagnrýnandi The New Yorker, sagði að þetta væri „ein áhrifaríkasta tónsmíð seinni ára“ enda hlaut Salonen hin virtu Grawemeyer-verðlaun fyrir verkið. Anna Þorvaldsdóttir er  löngu komin í röð fremstu tónskálda samtímans og nú í ár er hún staðartónskáld Fílharmóníuhljómsveitarinnar í New York. Verk hennar var samið fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og það er meðal annars að finna á hljómdiski hennar sem kom út hjá Deutsche Grammophon og vakti mikla hrifningu.

Hin danska Juliana Hodkinson hlaut Carl Nielsen-verðlaunin árið 2015 fyrir tónlist sína og nýtir sér hina ýmsu miðla á áhugaverðan og hrífandi hátt. Eitt nýjasta verk hennar hljómar hér, eins konar smákonsert fyrir rafgítar og hljómsveit. Rafgítarsnillingurinn Aart Strootman spilar á 8 strengja heimasmíðaðan gítar sem býður uppá áður óþekkta möguleika hljóðfærisins. Benjamin Staern smíðar stórt og tilþrifamikið hljómsveitarverk sitt út frá hugmyndum búddista um frumefnin fimm: vatn, loft, eld, jörð og tómið.

Rússneski hljómsveitarstjórinn Daniel Raiskin hefur vakið mikla athygli fyrir kröftugan og vel útfærðan flutning. Hann er nú aðalstjórnandi Rínarfílharmóníunnar í Koblenz og stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn í janúar 2016; árangurinn þótti svo afburðagóður að honum var boðið að koma aftur við fyrsta tækifæri.  

 

Sækja tónleikaskrá