EN

Osmo stjórnar Shostakovitsj

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
15. feb. 2018 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.500 kr.

Tónskáldin Shostakovitsj og Prokofíev urðu að þola margs konar mótlæti í Sovétríkjum Stalíns enda féllu hugmyndir þeirra ekki að öllu leyti að vilja yfirvalda. Tónlist þeirra er einmitt dæmi um það hvernig mikilfengleg list getur orðið til í mótbyr. Á þessum tónleikum hljóma tvö meistaraverk þeirra, bæði samin á fjórða áratug 20. aldar. Shostakovitsj samdi sjöttu sinfóníuna um það leyti sem síðari heimsstyrjöldin braust út. Þetta er verk sterkra andstæðna; í tónlistinni er bæði að finna djúpan harm og sprellfjöruga sveiflu. 

Sagan um Kijé liðsforingja er skemmtileg ádeila á skrifræði stórveldisins. Þegar nokkrir starfsmenn við keisarahirðina komast að því að á launaskránni er nafn liðsforingja sem aldrei hefur verið til taka þeir upp á því að kenna honum um allt sem úrskeiðis fer. Prokofíev samdi tónlist sína við kvikmynd eftir sögunni, en glæsileg svítan er meðal mest fluttu hljómsveitarverka tónskáldsins.

Einar Jóhannesson var fyrsti klarínettleikari Sinfóníunnar um áratuga skeið og er tónleikagestum að góðu kunnur fyrir listfengi sitt. Áskell Másson samdi nýverið handa Einari nýjan klarínettkonsert, lagrænt og hrífandi verk sem hljómar í fyrsta sinn á þessum tónleikum. 

Osmo Vänskä, heiðursstjórnandi Sinfóníunnar, er á hátindi ferils síns og laðar fram það besta í leik þeirra hljómsveita sem hann starfar með. Síðastliðið haust stjórnaði hann öllum sinfóníum Sibeliusar með Fílharmóníuhljómsveit Lundúna og hlaut frábæra dóma; „Hrifningin hríslaðist niður bakið á mér“ sagði tónlistarrýnir Financial Times um afrek þessa mikla Íslandsvinar. 

Sækja tónleikaskrá