EN

Stefán Ragnar og Tortelier

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
14. sep. 2017 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.500 kr.

Stefán Ragnar Höskuldsson er einn þeirra Íslendinga sem hvað lengst hafa náð í heimi klassískrar tónlistar. Um árabil var hann fyrsti flautuleikari við hljómsveit Metropolitan-óperunnar en gegnir nú sömu stöðu við Sinfóníuhljómsveitina í Chicago þar sem hinn heimskunni Riccardo Muti er við stjórnvölinn. Það er ávallt tilhlökkunarefni þegar Stefán Ragnar kemur fram á Íslandi. Hér leikur hann konsert Iberts sem er einn vinsælasti flautukonsert allra tíma, glaðvær og áheyrilegur.

Við stjórnvölinn er Yan Pascal Tortelier, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem er svo sannarlega á heimavelli í þessari efnisskrá. 

Charles Gounod er í dag helst kunnur fyrir Ave-Maríuna sem hann byggði á prelúdíu Bachs. Hann var eitt merkasta óperuskáld Frakklands á seinni hluta 19. aldar en samdi einnig tvær dásamlegar sinfóníur sem báðar hljóma á efnisskrá Sinfóníuhljómsveitarinnar í vetur. Hin fyrri er klassísk í sniði og minnir ýmist á Mozart eða Mendelssohn. Hér er um að ræða bráðsnjallt verk sem verðskuldar að hljóma mun oftar. Witold Lutosławski var eitt fremsta tónskáld Póllands á 20. öld. Meðal lykilverka hans er Konsert fyrir hljómsveit, glæsileg og kraftmikil tónsmíð þar sem hljómsveitin öll fær að sýna hvað í henni býr. 

Sækja tónleikaskrá