EN

Tetzlaff-tvíeykið spilar Brahms

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
15. sep. 2016 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.200 kr.
Tónleikakynning » 15. sep. kl. 18:00

Systkinin Christian og Tanja Tetzlaff eru meðal fremstu tónlistarmanna Þýskalands. Þau hafa áður leikið hvort í sínu lagi með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk þess sem þau komu fram á Listahátíð í Reykjavík ásamt píanistanum Leif Ove Andsnes. Nú snúa þau aftur með tilfinningaþrunginn tvíkonsert Brahms í farteskinu, síðasta hljómsveitarverk meistarans. Lýrísk svíta eftir Pál Ísólfsson heyrist furðu sjaldan, en hún er í ljúfum og áheyrilegum stíl og jafnast á við það besta sem hann lét frá sér.

Carl Nielsen var eitt mesta sinfóníutónskáld Norðurlanda og meðal tímamótaverka á ferli hans var sinfónían nr. 2, sem var flutt af sjálfri Berlínarfílharmóníunni skömmu eftir frumflutninginn árið 1901. Kenningin um skapgerðirnar fjórar, sem liggur til grundvallar verkinu, nær aftur til gríska heimspekingsins Hippókratesar og er á þá leið að í hverjum einstaklingi sé ein skapgerð meira eða minna ráðandi: glaðlyndi, bráðlyndi, dauflyndi eða melankólía. Osmo Vänskä hefur sýnt snilldartilþrif í starfi sínu með SÍ undanfarin misseri og þykir frábær túlkandi Nielsens, svo að þessir tónleikar ættu ekki að láta neinn ósnortinn. 

 

Sækja tónleikaskrá