EN

Anna Þorvaldsdóttir: Aeriality

Anna Þorvaldsdóttir (f. 1977) er eitt kunnasta tónskáld Íslands um þessar mundir. Verk hennar hafa komið út á hljómdiskum hjá Deutsche Grammophon og Sono Luminus, og hún hefur samið m.a. fyrir Ensemble Intercontemporain, The International Contemporary Ensemble (ICE) og The Crossing Choir. Hún hlaut Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2012 fyrir verk sitt Dreymi, sem var frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands. Anna er nú staðartónskáld SÍ og gegnir margþættu hlutverki í starfi hljómsveitarinnar. Hún situr í verkefnavalsnefnd hljómsveitarinnar og er í forsvari fyrir tónskáldastofuna Yrkju, sem er samstarfsverkefni Sinfóníunnar og Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og miðar að því að veita ungum tónskáldum reynslu í að semja fyrir sinfóníuhljómsveit.

Anna hlaut hin virtu Kravis Emerging Composer Award hjá Fílharmóníusveit New York­-borgar og í kjölfarið samdi hún verkið Metacosmos sérstaklega fyrir hljómsveitina. Verk henna hafa verið flutt af mörgum helstu hljómsveitum heims, meðal annars Fílharmóníusveit Berlínar og Fílharmóníusveit New York undir stjórn Alans Gilbert, Fílharmóníusveit Los Angeles og hljómsveitinni Fílharmóníu í Lundúnum undir stjórn Esa­ Pekka Salonen, og þannig mætti lengi telja.

Anna samdi Aeriality fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur eftirfarandi orð um verkið: 

Aeriality dansar á mörkum hljómsveitartónlistar og hljóðlistar, en í verkinu fléttast saman lagræn tónefni og þykkir hljóðmassar. Að hluta til samanstendur verkið af þykkum hljómum þar sem öll hljóðfæri hljómsveitarinnar renna saman í eitt og mynda margradda hljóðvegg. Mörkin á milli einstakra hljóðfæra verða óljós og hljómsveitin verður að þéttum massa. Við hápunkt verksins byggist upp breiður og óræður hljóðmassi. Hann leysist síðan upp í stutta lagræna hugleiðingu sem blómstrar í skamma stund og skilur eftir sig skugga af sjálfri sér. Orðið Aeriality vísar til þess að vera í lausu lofti, án haldreipis, og þannig bæði til frelsis og óróleika. Þá vísar orðið einnig til þeirrar yfirsýnar sem fæst úr lofti en ekki frá jörðu. Titill verksins er ennfremur orðaleikur þar sem orðunum aerial og reality er blandað saman til að skapa andstæður; reality ber tilvísun í jörð, hið raunverulega, og aerial í himinn, eða hið ósnertanlega.