EN

Anton Bruckner: Sinfónía nr. 8

Anton Bruckner (1824–1896) var um margt eitt af óvenjulegustu tónskáldum 19. aldarinnar, bæði hvað varðar persónugerð og listsköpun. Hann var fæddur í smáþorpi nærri Linz og hóf feril sinn sem organisti við Florian-klaustrið nærri Linz. Bruckner var þrjátíu og eins árs gamall þegar hann hóf tónsmíðanám, og var kominn á fimmtugsaldur þegar hann fluttist til Vínarborgar.  Þar tók hann við kennarastöðu við Tónlistarháskólann árið 1868. Bruckner þótti „sveitalegur“ í framkomu alla tíð og var þjakaður af minnimáttarkennd gagnvart eigin tónsmíðum, sem m.a. birtist í linnulausum endurgerðum hans á verkum sínum. Þá var hann einlægur trúmaður á tímum þegar fleiri listamenn sóttu innblástur í persónulega reynslu en til æðri máttarvalda. Merki þess má heyra í flestum verka hans, ekki eingöngu þeim sem samin eru fyrir trúarleg tækifæri.  

Síðari hluti 19. aldar einkenndist af árekstrum og illvígum deilum milli tveggja hópa tónlistarmanna – þeim sem aðhylltust „hreina“ eða „absólút“ tónlist annars vegar, og forvígismanna hinnar nýju „prógrammatísku“ framtíðartónlistar (Zukunftsmusik) hins vegar. Í fyrri hópnum voru m.a. Johannes Brahms og Joseph Joachim ásamt hinum áhrifamikla gagnrýnanda Eduard Hanslick, en Franz Liszt og Richard Wagner boðuðu nýja tíma með tónaljóðum sínum og tóndrömum. Bruckner var ávallt skipað í hóp með Wagneristum enda þótt tónlist hans byggi að mörgu leyti á allt öðrum forsendum, t.d. með því að nota hið hefðbundna sinfóníska form. Áhrifa Wagners gætir engu að síður víða, t.d. í notkun málmblásturshljóðfæra, auk þess sem Bruckner dáði hann öðrum mönnum fremur og tileinkaði honum þriðju sinfóníu sína.

Áttunda sinfónía Bruckners var jafnframt sú síðasta sem hann lauk við að fullu, þar sem honum entist ekki aldur til að ganga frá lokaþætti þeirrar níundu. Bruckner hóf að leggja drög að fyrsta kaflanum sumarið 1884. Þá virtist sem sú almenna viðurkenning sem hann hafði lengi barist fyrir væri loks í sjónmáli. Sjöunda sinfónían hafði m.a. hlotið góðar viðtökur í Leipzig undir stjórn Arthurs Nikisch og næstu misserin var hún flutt í öllum helstu tónlistarborgum Evrópu. Undir lok ársins 1885 var áttunda sinfónían tilbúin í stórum dráttum en Bruckner eyddi tveimur árum í viðbót í að fínpússa hana, breyta ýmsum smáatriðum og lagfæra hljómsveitarútsetninguna. Það var ekki fyrr en 4. september 1887 sem Bruckner ritaði bréf til vinar síns, hljómsveitarstjórans Hermann Levi, og tilkynnti honum fyrstum manna um hið nýja verk: „Halelúja! Loksins er áttunda sinfónían fullgerð, og listrænn faðir minn verður að vera fyrstur til að fá fregnina... Megi henni verða vel tekið!“ Levi var hirðhljómsveitarstjóri í München og stjórnaði m.a. frumflutningnum á Parsifal eftir Wagner í Bayreuth. Bruckner vonaðist mjög til þess að Levi myndi einnig frumflytja hið nýja verk sitt, enda hafði hann m.a. flutt Te Deum  og sjöundu sinfóníu Bruckners, auk þess sem hann safnaði fé til þess að hægt væri að gefa út nóturnar að fjórðu og sjöundu sinfóníunum. Bruckner leit á Levi sem listrænan föður sinn, og að hans mati var hann sá tónlistarmaður sem skildi tónlist hans best.  

Viðbrögð Levis hefðu ekki getað valdið Bruckner meiri sársauka. Levi þótti áttunda sinfónían of langdregin og framvindan sérkennileg, og lýsti því yfir að hann myndi ekki stjórna henni. Sjálfsálit Bruckners hrapaði niður á núllpunkt, hann var á barmi taugaáfalls svo vikum skipti og hugleiddi jafnvel sjálfsmorð. Þegar hann var orðinn vinnufær á nýjan leik var minnimáttarkennd hans slík að hann ákvað að endursemja fyrri sinfóníur sínar í þeirri von að „lagfæringarnar“ yrðu til að auka vinsældir þeirra. Á fjórum árum, frá 1887 til 1891, endursamdi Bruckner fyrstu fjórar sinfóníur sínar, auk þeirrar áttundu. Það flækir svo málið enn frekar að Bruckner stóð ekki einn að hinum svokölluðu endurbótum, heldur létu þrír nemendur hans (Ferdinand Löwe og bræðurnir Franz og Josef Schalk) einnig mjög til sín taka í þeim efnum. 

Árangurinn var vægast sagt misjafn. Í dag er það samdóma álit manna að þegar Bruckner hafi endurskoðað eigin hugmyndir hafi það oft verið til bóta, en að nemendur hans hafi aftur á móti sjaldnast ratað á lausnir sem tóku frumgerðinni fram. Árið 1890 fóru Bruckner og Josef Schalk í gegnum þá áttundu, takt fyrir takt, og breyttu ýmsum atriðum smáum og stórum. Meðal þess sem Bruckner samdi upp á nýtt var niðurlag fyrsta þáttar, sem endaði fortissimo í eldri útgáfunni en lýkur ofurveikt í seinni gerðinni. Á tónleikunum í kvöld verður flutt svokölluð Haas-útgáfa á sinfóníunni, þ.e. gerðin frá 1890, en án þeirra styttinga sem Josef Schalk stóð fyrir.

Tónlist Bruckners lýtur öðrum lögmálum en verk annarra tónskálda.  Hún þróast hægt og nálgast það að vera kyrrstæð á köflum, en einmitt þess vegna er hún svo viðamikil og stórfengleg.  Það er oft sagt um sinfóníur Bruckners að þær minni á dómkirkjur í tónum, og það á ekki síst við um síðustu sinfóníurnar þrjár. Fyrsti þáttur byrjar veikt, á tremolói í fiðlum og löngum horntónum. Neðri strengirnir kynna til sögunnar stef sem byrjar veikt en vex í styrkleika með hverri hendingu. Þeir sem þekkja upphafið að níundu sinfóníu Beethovens taka kannski eftir að rytmi upphafsstefsins er nákvæmlega sá sami og hjá Beethoven, og hugmyndin að byrja sinfóníu ofurveikt er vitaskuld einnig þaðan komin. Það eru þó ekki liðnir nema nokkrir taktar þegar stefið er orðið fullmótað og er leikið af hornunum, fortissimo, en innan skamms færist kyrrðin yfir á nýjan leik. Fiðlurnar leika seinna aðalstef kaflans, sem samanstendur í raun af fjórum rísandi skölum. Niðurlag kaflans er sérlega áhrifamikið; eftir þrumandi fortissimo í allri hljómsveitinni er skyndlega ekkert eftir nema hendingar upphafsstefsins, yfir ólgandi pákutónum. Smám saman klippir Bruckner framan af stefinu þar til aðeins þrír síðustu tónarnir eru eftir, og hverfa að lokum út í þögnina.

Fram að áttundu sinfóníunni hafði Bruckner fylgt hinni hefðbundnu forskrift varðandi kaflaskipan: annar kafli var hægur, en þriðji kafli var hratt og létt scherzo. Í áttundu sinfóníunni víxlar Bruckner innri köflunum tveimur, og enn má segja að hann feti í fótspor níundu sinfóníu Beethovens, þar sem kaflarnir eru einnig í þessari röð.  Scherzóið er fjarri því að vera afslappaður sveitadans. Bak við tónana býr einhver dulin ógn, sem hverfur þó um stundarsakir í tríóinu um miðbik þáttarins. Þar býður Bruckner okkur inn í hljóðheim sem ekki hefur heyrst áður í verkinu; fiðlurnar leika langar og blíðlegar hendingar, og ekki er síður eftirminnilegt stefið sem heyrist í hornum við töfrandi undirleik hörpunnar.  

Hægi kaflinn er lengsti þáttur sinfóníunnar og jafnframt tilfinningaleg þungamiðja hennar.  Við erum stödd í heimi kyrrlátrar íhugunar. Aðalstefið vex úr einum tóni í fiðlum sem skreyttur er með skrefagangi, fyrst ofan frá og síðan að neðan. Bruckner tekst að halda þræðinum gangandi í næstum hálfa klukkustund; línurnar flæða stöðugt fram og til baka og þrátt fyrir mikla dýnamíska breidd er yfirveguninni aldrei teflt í hættu. Lokaþátturinn er orkumikill og ágengur; málmblásararnir leika voldugt stef við tifandi undirleik strengjanna, sem halda sínu striki jafnvel í veikum milliköflum og leika stöðuga fjórðuparta sem minna á hjartslátt. Bruckner byggir hápunkta sína af mikilli kostgæfni, og hér eru það lokablaðsíðurnar sem mynda hinn stórfenglega hápunkt verksins alls. Helstu stef verksins, úr öllum fjórum köflunum, snúa aftur í síðasta sinn og mynda volduga heild. Að lokum renna línurnar saman í eina, og ólíkt hæglátu hvísli fyrsta þáttar lýkur sinfóníunni í heild á því að hljómsveitin öll leikur upphafsstefið með þrumandi krafti.