EN

Atli Heimir Sveinsson: Doloroso

 

Atli Heimir (1938) stundaði nám í píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík, og lauk lokaprófi í tónsmíðum og tónfræði frá Staatliche Hochschule für Musik í Köln 1963, nam raftónlist við Raftónverið í Bilthoven í Hollandi 1964 og sótti Kölner Kurse für neue Musik 1965.

Að námi loknu kom Atli heim og gerðist atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi. Hann var kennari í tónsmíðum og tónfræðum við Tónlistarskólann í Reykjavík og einnig gestaprófessor við Brown University. Þá annaðist hann vinsæla tónlistarþætti fyrir Rúv öðru hvoru um árabil. Atli var formaður Tónskáldafélags íslands 1972-83 og gegndi öðrum leiðandi trúnaðarstörfum í menningarstofnunum bæði heima og erlendis.

Verkalisti Atla Heimis er einkar fjölbreytilegur og telur hann nokkur hundruð tónverk, þar á meðal einleikskonserta, hljómsveitarverk, kammerverk, einleiksverk, sönglög og leikhústónlist. Atli hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 1976.

Um verkið segir tónskáldið meðal annars:

Doloroso var samið að beiðni Guðmundar Emilssonar og er samið í minningu Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, forsetafrúarinnar sem varð allri íslensku þjóðinni harmdauði þegar hún féll frá á besta aldri.

Titillinn segir allt um verkið. Það er hugleiðing um sársauka, söknuð og missi. Vitnað er frjálslega í útfararsálminn Allt eins og blómstrið eina, sem sunginn er yfir moldum allra Íslendinga. Og það er einsleiksfiðlan sem syngur lagið — eins og eftir minni.

Sumir segja að tónlistin sé andheimur, annar en veruleiki hlutanna. Sumir segja að tónlistin geti linað sorg hins jarðneska lífs og veitt mannkyninu huggun. Doloroso er samið með það í huga.

Verkið var frumflutt af Kammersveit baltnesku fílharmóníunnar undir stjórn Guðmundar Emilssonar á tónleikum Brown-háskólans í Providence í Bandaríkjunum að viðstöddum forseta Íslands.