EN

Johannes Brahms: Sinfónía nr. 4

Í rómverskri goðafræði er Janus guð tímamóta, upphafs og enda, og í myndlist birtist hann oft með tvö höfuð sem snúa í andstæðar áttir. Í tónlist sinni horfir Johannes Brahms (1833–1897) bæði fram á veginn og aftur til fortíðar, fléttar saman aldagamalli þýskri tónlistarhefð og nýjum aðferðum, tengir saman hljóma á óhefðbundinn hátt og fléttar saman smæstu einingar svo úr verða breiðar laglínur. Sjaldan mætast fortíð og nútíð jafneftirminnilega í verkum Brahms og í fjórðu sinfóníunni, sem hann samdi í austurrísku ölpunum sumrin 1884 og 1885. Brahms þekkti tónlist gömlu barokkmeistaranna eins og lófann á sér enda voru fremstu Bach-fræðingar 19. aldar, þeir Friedrich Chrysander og Philipp Spitta, meðal nánustu vina hans. Það var Spitta sem gaf Brahms handskrifað eintak að kantötu nr. 150, Nach dir, Herr, verlanget mich eftir J.S. Bach, nokkrum árum áður en hún var fyrst gefin út á prenti. Brahms byggði einmitt lokaþátt fjórðu sinfóníunnar á einu af stefjum kantötunnar. 

Brahms hafði af því nokkrar áhyggjur að sinfónían væri of þung og tormelt fyrir almenning. Dræm viðbrögð sumra vina hans gerðu lítið til að slá á áhyggjurnar. „Byrjunin er of glannaleg,“ sagði fiðluleikarinn Joseph Joachim. Clara Schumann og Elisabeth von Herzogenberg létu einnig í ljós efasemdir. „Erfið, mjög erfið,“ sagði hljómsveitarstjórinn Hans von Bülow, „risavaxin, nýstárleg, einstök. Óviðjafnanleg orka frá fyrsta takti til hins síðasta.“ Að vissu leyti höfðu þau öll á réttu að standa. En maður skyldi varast að vanmeta áheyrendur. Fjórða sinfónían sló í gegn við frumflutninginn í Meiningen í október 1885 og hefur æ síðan þótt eitt mesta afrek Brahms í sinfónískum tónsmíðum. 

Sinfónían hefst á stefi sem er dæmigert fyrir Brahms á sínum efri árum; ljúft og blítt en býr um leið yfir djúpum trega. Tónlistin verður smám saman kraftmeiri og næsta stef er ástríðuþrungið, leikið af sellóum og hornum. Litbrigðin eru óteljandi, allt frá dularfullum pianissimo-hljómum yfir í valdsmannslegan lúðraþyt og hornablástur. Úrvinnslan er heillandi, dulúðug og kröftug til skiptis, og þegar upphafshendingarnar snúa aftur leikur Brahms á hlustendur sína með því að teygja úr þeim svo þær verða næstum óþekkjanlegar. Það er hluti af galdrinum hvernig Brahms leysir upp mörkin milli kaflaskila innan þáttarins, en þó er tónlistin ávallt markviss og stefnuföst.

Annar þáttur er ljóðrænt Andante þar sem tréblásarar eru mjög í forgrunni; tónlistin er oftast hugljúf en ratar stundum á dekkri slóðir eins og Brahms er von og vísa. Varla verður sagt um þriðja kafla sinfóníunnar að hann sé léttfætt scherzo „à la Beethoven“ – til þess er tónefnið of voldugt, hljómsveitarútsetningin þykk og formið umfangsmikið (sónötuform í stað hins dæmigerða og tiltölulega einfalda scherzo-trio-scherzo). Þótt dansinn sé fremur þungstígur hefur hann glaðvært yfirbragð, og hér notar Brahms þríhorn í eina skiptið í öllum sinfóníum sínum.

Lokaþátturinn er sjakonna (chaconne) – þrjátíu tilbrigði yfir átta takta hljómagang sem fenginn er að láni úr kantötu nr. 150 eftir Bach. Við upphaf þáttarins heyrist stefið í sínu tærasta formi en í tilbrigðunum sýnir Brahms meistaratök sín og skoðar stefið í sífellt nýju ljósi – það er ýmist hratt eða hægt, blítt eða ofsafengið. Hér má einnig greina áhrif frá öðru verki Bachs í sama formi og Brahms valdi sér, sjakonnu fyrir einleiksfiðlu – ekki síst þegar skipt er yfir í blíðan dúr um miðbikið. Með því að taka eitt stórfenglegasta form barokktímans og gera það fullkomlega að sínu eigin tengir Brahms saman nútíð og fortíð á áhrifamikinn hátt.