EN

Kristín Þóra Haraldsdóttir: Cycles

Kristín Þóra kemur víða við í nálgun sinni á tónlist og sinnir jöfnum höndum hlutverkum tónskálds, flytjanda og spunaleikara. Nálgun Kristínar er gjarnan tilraunakennd í gegnum spuna og umhverfishljóð. Verk hennar hafa verið flutt af Sinfóníuhlómsveit Íslands, Nordic Affect, Umbru, Kúbus, XelmYa trio, Israeli Contemporary Players og fleirum. Cycles er hennar annað verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, en Water's Voice, sem hljómsveitin flutti árið 2015 var valið sem framlag Íslands á International Rostrum of Composers í Tallin í Eistlandi það árið.

Kristín kemur reglulega fram sem víóluleikari með hljómsveitum á borð við Mógil og Umbru, kammersveitum, söngvaskáldum og spunaleikurum, ásamt því að hafa starfað með hópum tengdum leikhúsi og gjörningum. Kristín hefur frumflutt ný einleiksverk fyrir víólu á Myrkum músíkdögum, Jaðarberi, Tectonics Glasgow og Dogstar hátíðinni í Los Angeles. Árið 2016 kom út plata með tónlist og hljóðmyndum hennar með gítar og umhverfishljóðum hjá VDSQ Records.

Kristín nam víóluleik og tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og lauk vorið 2011 mastersnámi í flutningi, tónsmíðum og samtengdum miðlum við California Institute of the Arts.

Um hljómsveitarverkið Cycles segir Kristín Þóra:

Cycles — hljóðmyndir af hringrásum og tímabilum fara um sporbrautir og birtast á víxl. Hljómfall og tíðnir eru fengnar úr tónaröðum í réttstillta kerfinu (just intonation), sem byggist á hinni náttúrulegu yfirtónaröð.