EN

Maurice Ravel: Alborada del gracioso

Allnokkuð flæði er á milli píanó- og hljómsveitarverka Maurice Ravels eins og glöggt má greina af efnisskrá kvöldsins. Öll verkin eru til bæði í búningi fyrir einleikspíanó og hljómsveit en misjafnt hvor gerðin leit fyrst dagsins ljós. Ravel var fær píanóleikari, hafði lært á hljóðfærið frá sjö ára aldri og vann til verðlauna fyrir leik sinn á námsárunum við Tónlistarháskólann í París. Hann lét þó ekki mikið að sér kveða sem einleikari á fullorðinsárum sínum. Hinn smávaxni Ravel var einkar handsmár og því átti hann örðugt með að flytja verk sem ætluð voru miklum krumlum. 

Alborada del gracioso er hið elsta af verkum Ravels sem hljóma á tónleikum kvöldsins, þáttur úr píanóverkinu Miroirs (Skuggsjá) frá árinu 1905. Frönsk tónskáld höfðu um árabil haft miklar mætur á spænskri tónlist og lagt sig fram um að laða fram liti hennar og stemningu í verkum sínum. Þar ber hvað hæst óperuna Carmen eftir Bizet, en einnig má nefna Symphonie espagnole eftir Lalo, einþáttunginn España eftir Chabrier, og þannig mætti lengi telja. Í Alborada del gracioso fetar Ravel svipaða slóð. Hann var sjálfur fæddur í þorpi í frönsku Pýreneafjöllunum auk þess sem móðir hans var basknesk og ólst upp í Madrid, þannig að slík tónlist var fjarri því að vera Ravel framandi. 

Alborada merkir morgunsöngur, en Ravel tekur einnig fram að það sé gracioso, trúður eða æringi úr spænskum gamanleikjum, sem flytur tónlistina. Verkið hefst með gítarspili – í hljómsveitargerðinni eru það harpa og plokkaðir strengir sem leika. Þá hljómar fjörugur og gáskafullur dans með spænskættuðum stefjum, en um miðbikið hægist á og ljóðrænn söngur trúðsins tekur við. Ravel hafði einstakt eyra fyrir litum og hljómum tónlistarinnar og margir telja að sjaldan hafi list hans náð slíkum hæðum sem í útsetningu Alborada del gracioso frá 1918.