EN

Oddgeir Kristjánsson: Lagasyrpa

Oddgeir Kristjánsson (1911–1966) var eitt vinsælasta söngvaskáld Íslendinga á 20. öld og vann ómetanlegt starf við uppbyggingu tónlistarlífs í Eyjum. Hann var farinn að þeyta lúður í Lúðrasveit Vestmannaeyja tæpra þrettán ára gamall og veturinn 1930–31 lærði hann á
fiðlu hjá Þórarni Guðmundssyni í Reykjavík. Hann lék á fiðlu í danshljómsveit í Eyjum og stundaði kennslu á ýmis hljóðfæri auk þess sem hann samdi hátt í 50 lög, 21 þeirra beinlínis fyrir Þjóðhátíð Vestmannaeyja. Oddgeir endurvakti Lúðrasveit Vestmannaeyja 1939 ásamt Hreggviði Jónssyni og stjórnaði henni til dauðadags 1966. Oddgeir starfaði lengst af sem verslunarmaður, fyrst í Vöruhúsinu en varð síðar forstjóri Bifreiðastöðvar Vestmannaeyja. Hann tók að sér tónlistarkennslu í Barnaskóla Vestmannaeyja árið 1957 sem aðalstarf og kenndi þar til dauðadags. Þar stofnaði hann samfara kennslunni barnakór og lúðrasveit en einnig kom hann á laggirnar lúðrasveit í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja sem talin er fyrstu skólalúðrasveitin á landinu.

Í Oddgeirssyrpu sem Magnús Ingimarsson útsetti fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1971 má heyra nokkur af hans vinsælustu lögum, m.a. Ship ohoj, Vorvísu, Heima, Gamla gatan, Síldarstúlkurnar, Sólbrunnir vangar og Vor við sæinn. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur hljóðritað syrpuna tvívegis fyrir Ríkisútvarpið og lék hana einnig á tónleikum sínum í Eyjum 1971 og 1975.