EN

Pablo de Sarasate: Carmen-fantasía

Spænski fiðluleikarinn og tónskáldið Pablo Sarasate (1844–1908) var einn mesti fiðluvirtúós 19. aldarinnar á eftir sjálfum Paganini. Hann kom fyrst fram opinberlega átta ára gamall og ekki leið á löngu þar til Ísabella Spánardrottning hafði styrkt hann til náms í París, þar sem hann vann fyrstu verðlaun í hljóðfæraleik 1856, tólf ára gamall. 

Fjöldi tónskálda 19. aldarinnar tileinkuðu Sarasate verk sín, m.a. Bruch (Fiðlukonsert nr. 2 og Skosku fantasíuna), Saint-Saëns (Fiðlukonserta 1 og 3), Lalo (Symphonie espagnole), Wieniawski (Fiðlukonsert nr. 2) og Joseph Joachim. Zigeunerweisen op. 20 (1878) er frægasta verk hans fyrir fiðlu, en Carmen-fantasían um stef úr óperu Bizets hefur einnig notið mikilla vinsælda um allan heim, enda notfæra hann sér tæknilega möguleika fiðlunnar til hins ítrasta í báðum verkum. 

Þótt ópera Georges Bizet um sígaunastúlkuna Carmen hafi fengið afleitar viðtökur við frumflutninginn 1875 liðu ekki nema örfá ár þangað til hún hafði farið sigurför um heiminn. Sarasate hafði þegar samið nokkur virtúósaverk fyrir fiðlu upp úr frægum óperustefjum, m.a. Don Giovanni, Der Freischütz og Vald örlaganna. Hann hefur þó varla grunað að Carmen-fantasían op. 25 yrði sú eina af þessu tagi sem hefur lifað og heyrist reglulega í tónleikasölum víða um heim. 

Fantasían er í fjórum samhangandi þáttum. Forspilið er inngangurinn að fjórða þætti óperunnar, en í fyrsta kaflanum spinnur Sarasate út frá Habanerunni víðfrægu: L'amour est un oiseau rebelle. Í kjölfarið fylgja Séguidilla arían úr fyrsta þætti óperunnar og sprellfjörugur dans úr öðrum þætti, þar sem fiðluleikarinn þarf á öllu sínu að halda til að komast klakklaust gegnum þær miklu kúnstir sem Sarasate leggur fyrir.