EN

Richard Strauss: Burleske

Richard Strauss (1864–1949) sýndi fljótt mikla hæfileika í tónlist og samdi sitt fyrsta tónverk aðeins sex ára gamall. Hann var prýðilegur fiðluleikari og píanisti, en tónsmíðar og hljómsveitarstjórn fönguðu huga hans á unglingsárum. Meðal æskuverka hans er Burleske fyrir píanó og hljómsveit, samið þegar hann var 21 árs gamall. Upphaflega hét verkið Scherzo í d-moll og Strauss samdi það með Hans von Bülow í huga, en hann var einn af mestu píanistum og hljómsveitarstjórum á seinni hluta 19. aldar og var um skeið tengdasonur Wagners. Bülow var aðalstjórnandi hljómsveitarinnar í Meiningen í Þýskalandi, sem í þá daga þótti flestum öðrum fremri, og þar var Strauss um þetta leyti aðstoðarstjórnandi. Þó fór svo að Bülow játaði sig sigraðan, sagði verkið ekki henta sínum smáu höndum. Það var annar píanisti, Eugen d'Albert, sem frumflutti verkið árið 1890 og hlaut að launum tileinkun höfundarins. 

Tónsmíðar hins fullþroska Richards Strauss eru litríkar og undir áhrifum af hljómanotkun þeirra Wagners og Liszts, en í þessu verki ber minna á slíkum áhrifum. Þykkur píanóparturinn minnir á köflum jafnvel fremur á Johannes Brahms. Þó má einnig heyra ávæning af tónmáli Strauss síðar á ferlinum. Áberandi í verkinu er eins konar valstaktur sem þó er ekki beinlínis vals í hefðbundnum skilningi, sem minnir á að Strauss átti síðar eftir að semja dásamlega valsa í óperunni Rósarriddaranum. Hvað formið snertir er Burleske einþáttungur í hefðbundnu sónötuformi. Upphaflega var Strauss mjög í vafa um hvort hann ætti að leyfa útgáfu Burleske á nótum en eftir því sem árin liðu óx ánægja hans með verkið og það var á efnisskrá síðustu tónleikanna sem tónskáldið stjórnaði, árið 1947. 

Burleske heyrist fremur sjaldan á tónleikapalli en þó hafa nokkrir heimsfrægir píanistar tekið ástfóstri við það. Rudolf Serkin lék verkið margoft en á seinni árum hafa meðal annars Martha Argerich og Emanuel Ax leikið það opinberlega.