EN

Samuel Barber: Fiðlukonsert

Bandaríkjamaðurinn Samuel Barber er án efa þekktastur fyrir hið fræga Adagio fyrir strengi (sem var upphaflega hægi kaflinn í strengjakvartett hans op. 11, frá 1936). Verk hans hafa oft á sér ný-rómantískan blæ og í þeim eru lagrænir eiginleikar tónlistarinnar í forgrunni. Barber samdi fiðlukonsertinn á árunum 1939-40 og var hann fyrsta verk tónskáldsins í konsertformi, en síðar bættust við sellókonsert (1945) og píanókonsert (1962). Forsaga verksins er sú að bandarískur auðkýfingur hafði tekið ungan fiðluleikara undir verndarvæng sinn og pantaði konsert handa hinum unga skjólstæðingi sínum. Barber tók vel í beiðnina og samdi tvo fyrstu þættina í Sviss 1939. Hann sneri aftur til Bandaríkjanna þegar síðari heimsstyrjöldin braust út, og þegar heim var komið sýndi hann fiðluleikaranum afraksturinn. Sá var síður en svo ánægður og sagði að tónlistin væri of einföld, hann hefði viljað að tónlistin hefði yfir sér meiri virtúósabrag. Þegar lokaþátturinn var tilbúinn skömmu síðar kvað þó við annan tón. Fiðluleikarinn ungi brást enn ókvæða við, en nú sagði hann tónlistina vera alltof flókna og kaflann algjörlega óspilandi. Þar með var tónskáldið í klípu, því að auðkýfingurinn neitaði að borga fyrir verk sem ekki væri hægt að flytja. Þessu vildi Barber ekki una. Hann safnaði saman dómnefnd við Curtis-tónlistarháskólann (þar sem hann kenndi) og fékk ungan fiðlunemanda við skólann til að læra kaflann á nokkrum klukkutímum og leika fyrir virtustu kennara skólans. Þar með hafði Barber sannað mál sitt, en skjólstæðingurinn ungi lék konsertinn víst aldrei opinberlega.  

Fyrstu tveir kaflarnir hafa sannarlega yfir sér rólyndislegt yfirbragð. Í fyrsta þætti er fiðlan strax í forgrunni með syngjandi lýríska laglínu, sem klarínettið svarar með öðru stefi, öllu glettnara. Smám saman verður tónlistin ástríðufyllri og jafnvel ofsafengin á köflum, en allt fellur að lokum í ljúfa löð og niðurlag þáttarins er eins friðsælt og hugsast getur.  Hægi kaflinn er djúphugull og tregafullur. Óbólínan og silkimjúkir strengjahljómarnir gefa tóninn strax í upphafi, en í miðhluta kaflans verður andrúmsloftið öllu spennuþrungnara þegar harðir málmblásturshljómarnir taka við. Þriðji kaflinn, sá sem sagður var óspilandi, er sannarlega einhver glæsilegasti lokaþáttur í fiðlutónlist 20. aldar, og saminn undir nýklassískum áhrifum Stravinskíjs. Síkvikar tónarunur fiðlunnar halda áheyrendum í greipum spennu og eftirvæntingar, ekki síst þar sem hrynmynstrin eru síbreytileg og erfitt að segja til um hvað bíður handan við næsta horn.