EN

Vínartónleikar 2017

Vinsælustu tónleikar Sinfóníunnar

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
5. jan. 2017 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 3.500 - 8.200 kr.
6. jan. 2017 » 19:30 » Föstudagur Eldborg | Harpa 3.500 - 8.200 kr.
7. jan. 2017 » 16:00 » Laugardagur Eldborg | Harpa 3.500 - 8.200 kr.
7. jan. 2017 » 19:30 » Laugardagur Eldborg | Harpa 3.500 - 8.200 kr.
  • Efnisskrá

    Óperettutónlist og valsar eftir Johann Strauss yngri, Franz Lehár og Emmerich Kálman, m.a. úr Leðurblökunni og Kátu ekkjunni

  • Hljómsveitarstjóri

    David Danzmayr

  • Einsöngvarar

    Þóra Einarsdóttir
    Bror Magnus Tødenes

  • Danshöfundur

    Lára Stefánsdóttir

Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa um árabil verið allra vinsælustu og fjölsóttustu tónleikar hljómsveitarinnar. Nokkur af djásnum valsakóngsins Johanns Strauss prýða efnisskrá fyrstu tónleika ársins sem hefjast á forleiknum að Leðurblökunni og lýkur á Dónárvalsinum. Inn á milli heyrast fagrir valsar og polkar að ógleymdum óperettuaríum og dúettum sem allir þekkja. Meðal annars hljómar arían „Heut' Nacht hab' ich geträumt von dir“ eftir óperettuskáldið Emmerich Kálman, en hún hefur óvænt slegið í gegn á Íslandi á seinni árum við textann „Ég er kominn heim“.

Austurríski hljómsveitarstjórinn David Danzmayr stjórnaði Vínartónleikum Sinfóníunnar fyrir tveimur árum og vakti slíka lukku að honum var umsvifalaust boðið að snúa aftur. Hann hlaut eldskírn sína sem aðstoðarmaður Pierres Boulez og komst á verðlaunapall í tveimur stærstu stjórnendakeppnum heims, Malko- og Mahler-keppnunum. Þóra Einarsdóttir hefur fyrir löngu sungið sig inn í hug og hjörtu landsmanna. Meðal ótal viðurkenninga sem henni hafa fallið í skaut má nefna Íslensku tónlistarverðlaunin 2015, en þar var hún valin söngkona ársins fyrir tvenna tónleika þar sem hún söng verk Sibeliusar með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Norski tenórinn Bror Magnus Tødenes hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hljómþýða rödd sína og fyrsti hljómdiskur hans, þar sem hann syngur aríur sem Jussi Björling gerði vinsælar, náði metsölu. Hann hlaut fyrstu verðlaun í Tebaldi- söngkeppninni árið 2015 og hefur meðal annars sungið á Salzburgarhátíðinni og við afhendingu friðarverðlauna Nóbels.

Dansarar á Vínartónleikunum eru Alma Kristín Ólafsdóttir, Anouk Jouanne, Arney Sigurgeirsdóttir, Bjartey Elín Hauksdóttir, Emilie Anne Jóhannsdóttir Salvesen, Guðrún Mist Hafsteinsdóttir, Lísandra Týra Jónsdóttir, Sigrún Úlfarsdóttir, Tinna Ágústsdóttir og Yannier Ovideo. Danshöfundur er Lára Stefánsdóttir.

Sækja tónleikaskrá