EN

Maxímús Músíkús

Maxímús Músíkús er fyrir löngu orðinn heimilisvinur barna á Íslandi. Ævintýrið um þessa tónelsku mús hljómaði fyrst á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar í maí 2008. Í kjölfarið fylgdi músagangur víða veröld og hafa sögur af Maxa, tónelsku músinni frá Íslandi, komið út á mörgum ólíkum tungumálum eins og kínversku, þýsku, færeysku, kóreönsku, portúgölsku og ensku. 

Maxi er einnig reglulegur gestur á fjölskyldutónleikum Sinfóníunnar, Litla tónsprotanum, og í Barnastund Sinfóníunnar. Hann á þátt í að skipuleggja skemmtilega viðburði fyrir smáfólk.

Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflutti ævintýrið um Maxímús en í dag hafa margar aðrar hljómsveitir, í ýmsum löndum, flutt ævintýrið fyrir unga hlustendur á öllum aldri. Höfundarnir, Hallfríður Ólafsdóttir og Þórarinn Már Baldursson eru bæði meðlimir í Sinfóníuhljómsveit Íslands.  Vladimir Ashkenazy, heiðursstjórnandi Sinóníuhljómsveitar Íslands, er sérstakur verndari verkefnisins.

Verkefnið um Maxímús Músíkús er efni til kynningar á tónlist, hljóðfærum og sinfóníuhljómsveitinni. Út hafa komið fjórar myndskreyttar bækur ásamt meðfylgjandi geisladiskum með flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Fyrsta bókin, Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina, hlaut Fjöruverðlaunin sem barnabók ársins 2008 og Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar 2008. Í kjölfarið fylgdu Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann, Maxímús Músíkús bjargar ballettinum og Maxímús Músíkús kætist í kór.

Maxi er einnig reglulegur gestur á fjölskyldutónleikum Sinfóníunnar, Litla tónsprotanum, og í Barnastund Sinfóníunnar. Hann á þátt í að skipuleggja skemmtilega viðburði fyrir smáfólk.