EN

Ungsveitin tekin tali: Spiluðu áfram í svartamyrkri

Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir konsertmeistari og Árni Daníel Árnason trompetleikari Ungsveitarinnar

 „Fyrsta árið mitt prufuspiluðum við í sjálfri Eldborg, og það var meiriháttar upplifun að standa þar á sviðinu í fyrsta sinn. Hún virkar enn stærri séð frá sviðinu!“

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur verið starfrækt frá árinu 2009, en í henni gefst hæfileikaríkum ungum tónlistarmönnum tækifæri til að þroska færni sína í hljómsveitarleik og kynnast um leið mörgum áhrifamestu verkum tónbókmenntanna. Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir er konsertmeistari sveitarinnar, en Árni Daníel Árnason er fyrsti trompetleikari hennar. Þrátt fyrir ungan aldur – Sólrún er tuttugu og eins árs en Árni Daníel sautján ára – hafa bæði tekið þátt í starfi sveitarinnar í nokkur ár. „Þetta er mikill skóli,“ segir Árni, „að fá að vera í þessu húsi, og spila á sama sviði og Sinfóníuhljómsveit Íslands, með sama hljómsveitarstjóra, í sal sem er þekktur um allan heim fyrir hljómgæði. Það er mikill heiður,“ bætir hann við. „Þetta er líka svo dýrmæt samvinna,“ segir Sólrún Ylfa. „Ég ólst til dæmis upp í kringum hundrað fiðluleikara – en talaði eiginlega aldrei við trompetleikara eins og Árna, þótt við værum í sama skóla. En hér eru allir saman í þessu, og hópurinn verður mjög þéttur.“ 

Allt eins og í atvinnuhljómsveit 

Öll umgjörð Ungsveitarinnar er eins og í atvinnuhljómsveit – þar með taldar áheyrnarpufurnar, sem haldnar eru á vorin ár hvert. „Maður fær sendar nótur með góðum fyrirvara og fær tíma til að undirbúa sig,“ segir Sólrún Ylfa. „Svo spilar maður fyrir nokkra dómara sem maður veit ekkert hverjir eru, fyrir aftan svart tjald.“ Sólrún og Árni eru sammála um að ferlið sé svolítið stressandi. „Þetta er samt hvetjandi, vinsamleg samkeppni,“ segir Sólrún Ylfa. „Mesta stressið var í fyrsta skiptið,“ bætir Árni við, „fyrsta árið mitt prufuspiluðum við í sjálfri Eldborg, og það var meiriháttar upplifun að standa þar á sviðinu í fyrsta sinn. Hún virkar enn stærri séð frá sviðinu!“ 

Spiluðu áfram í svartamyrkri Þegar valið hefur verið í hópinn kemur hljómsveitin saman í septemberbyrjun og æfir stíft fram að tónleikum, sem í ár verða sunnudaginn 23. september. Á þessu starfsári kemur Ungsveitin einnig fram á Myrkum músíkdögum 31. janúar, og hefur þá í fyrsta sinn almenna tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands. „Það er mjög gaman að fjölga verkefnunum og koma oftar saman,“ segir Árni, og Sólrún Ylfa tekur undir: „Það er líka mjög spennandi starfsumhverfi á Myrkum músíkdögum, þar sem svona fersk tónlist er í forgrunni.“ Verkefni Ungsveitarinnar hafa annars verið mjög fjölbreytt síðustu ár. Hvað skyldi hafa verið í uppáhaldi hjá Sólrúnu og Árna? „Mér hafa reyndar þótt verkefnin verða skemmtilegri og skemmtilegri eftir því sem ég hef fengið að spila bitastæðari parta í þeim,“ viðurkennir Árni og hlær. „Það var kannski mest krefjandi í fyrra, þegar við spiluðum Vorblótið undir stjórn Daniels Raiskin, sem stjórnar okkur aftur í ár,“ og Sólrún Ylfa tekur undir þetta. „En ég held að uppáhaldið mitt sé samt efnisskráin sem var þegar ég tók fyrst þátt. Það var Sinfónía númer fimm eftir Mahler. Hún situr vel í minninu, enda alveg stórkostleg,“ segir Sólrún Ylfa. Það eru samt ekki bara tónverkin sem sem eru minnisstæð – enda getur ýmislegt komið uppá á æfingum og tónleikum. „Við höfum enn ekki lent í neinu svakalegu á tónleikum, en ég man ég eftir því þegar öll ljósin slokknuðu á æfingu í Norðurljósum og það varð bókstaflega allt svart. Samt hélt hljómsveitin áfram að spila – það voru allir búnir að æfa sig svo vel og kunnu þetta utanbókar.“ 

Góð liðsheild og heimilislegt aukalag

Ungsveitin hefur vakið athygli á tónleikum sínum fyrir kraftmikinn samleik og spilagleði – og svo eiga þau sína eigin einkennisbúninga, húfur og treyjur, sem ýta enn undir liðsheildina. „Já, það er smá stemming í kringum þetta allt,“ segir Sólrún Ylfa, „Okkur finnst þetta skemmtilegt. Að vera með okkar eigið lógó – og svo er það auðvitað aukalagið!“ Árni útskýrir þetta: „Við höfum tekið sama aukalagið í þrjú ár: Dýravísur í útsetningu Jóns Leifs, betur þekktar undir heitinu Hani, krummi, hundur, svín.“ Sólrún Ylfa bætir við: „Það er alltaf svolítið hressandi – eins og í fyrra – að spila rosalega flott og umdeilt verk eftir Stravinskíj, og taka svo þetta fjörlega aukalag í lokin. En það er ákveðinn sameiningarkraftur í því.“ Árni tekur undir það: „Það er eitthvað svo heimilislegt, eftir erfiða tónleika – að spila þetta lag í lokin.“