EN
  • Home Delivery

24. mars 2021

Sinfónían tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021

Sinfóníuhljómsveit Íslands hlaut tvær tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021, sem flytjandi ársins og fyrir tónlistarviðburð ársins. Verðlaunin verða veitt í Silfurbergi Hörpu laugardagskvöldið 17. apríl.

Sinfóníuhljómsveit Íslands er tilnefnd sem flytjandi ársins í sígildri- og samtímatónlist ásamt því að 70 ára afmælistónleikar hljómsveitarinnar þann 5. mars 2020 eru tilnefndir sem viðburður ársins í sígildri- og samtímatónlist. Á tónleikunum stjórnaði Eva Ollikainen, aðalstjórnandi hljómsveitarinnar, verkum eftir Pál Ísólfsson, Jean Sibelius og Gustav Mahler, og fengu tónleikarnir frábærar viðtökur. „Frá­bærir tón­leikar; fal­leg tón­list og ein­stæður flutningur,“ sagði gagnrýnandi Fréttablaðsins meðal annars um tónleikan sem hann gaf fimm stjörnur.

Tvö verk sem hljómsveitin frumffluti á árinu eru tilnefnd sem tónverk ársins. Konsert fyrir hljómsveit eftir Snorra Sigfús Birgisson og BOX, konsert fyrir harmónikku og lírukassa eftir Huga Guðmundsson.

Einnig er gaman að sjá fleiri tilnefningar sem tengjast hljómsveitinni. Í flokki flytjenda ársins eru margir listamenn sem hafa komið fram með hljómsveitinni á árinu. Það eru Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari hljómsveitarinnar, Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari og Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari sem bæði léku einleik með hljómsveitinni á tónleikum á árinu. Fjölmargir söngvarar sem komu fram með hljómsveitinni á árinu eru einnig tilnefndir. Það eru Elmar Gilbertsson, Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, Hallveig Rúnarsdóttir og Herdís Anna Jónasdóttir.