EN

Yan Pascal Tortelier

Aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands

  • Yan Pascal Tortelier

Yan Pascal Tortelier kemur úr þekktri franskri tónlistarfjölskyldu og faðir hans, Paul Tortelier, var einn mesti sellóleikari Frakklands á 20. öld. Yan Pascal hóf ungur nám í fiðlu- og píanóleik og stundaði einnig nám í hljómfræði og kontrapunkti hjá Nadiu Boulanger. Fjórtán ára gamall vann hann til fyrstu verðlauna í fiðlukeppni við Tónlistarháskólann í París og þreytti sama ár frumraun sína sem einleikari með Fílharmóníuhljómsveit Lundúna. Hugur hans stefndi þó annað og að loknu námi í hljómsveitarstjórn hjá Franco Ferrara í Siena starfaði hann um níu ára skeið sem aðstoðarstjórnandi Orchestre National du Capitole de Toulouse.

Tortelier var síðan aðalhljómsveitarstjóri Ulster-hljómsveitarinnar í Belfast á Norður Írlandi frá 1989–1992 og BBC-fílharmóníunnar á árunum 1992–2003. Þá var hann aðalgestastjórnandi Pittsburgh-sinfóníunnar frá 2005–2008 og aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í São Paulo í Brasilíu frá 2009–2011 og er nú heiðursgestastjórnandi hennar.

Yan Pascal Tortelier hefur í gegnum tíðina stjórnað mörgum af helstu hljómsveitum heimsbyggðarinnar. Þar má meðal annars nefna Sinfóníuhljómsveit Lundúna, Concertgebouw-hljómsveitina í Amsterdam, Tékknesku fílharmóníuna, Filharmonien í Ósló, Filarmonica della Scala í Mílanó, Philadelphia Orchestra, Fílharmóníuhljómsveitirnar í Lundúnum, Sankti Pétursborg og Los Angeles Philharmonicog sinfóníuhljómsveitirnar í Boston, Chicago og Montreal.

Tortelier hefur um langt árabil starfað fyrir Chandos-útgáfuna og hljóðritað fjöldamörg verk, einkum með Ulster-hljómsveitinni og BBC-fílharmóníunni. Afraksturinn er meðal annars verðlaunadiskar með hljómsveitarverkum eftir Ravel (þar á meðal eigin hljómsveitarútsetning á píanótríói Ravels), César Franck, Albert Roussel og Henri Dutilleux. Árið 2017 var hann sæmdur heiðursorðu franska lýðveldisins, Légion d'honneur, fyrir störf sín í þágu franskrar tónlistar á heimsvísu.