EN

Eva stjórnar Brahms

Snilld í áskrift! Veldu tvenna tónleika eða fleiri á kortið þitt og þú færð 20% afslátt af miðaverði. Kaupa áskrift
Dagsetning Staðsetning Verð
12. nóv. 2020 » 20:00 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr.
Kaupa miða
 • Efnisskrá

  Joseph Haydn Sellókonsert í C-dúr
  Julia Perry A Short Piece for Orchestra
  Kenneth Fuchs Konsert fyrir bassabásúnu og hljómsveit
  Johannes Brahms Akademískur hátíðarforleikur

 • Hljómsveitarstjóri

  Eva Ollikainen

 • Einleikarar

  Sigurgeir Agnarsson selló
  David Bobroff bassabásúna

Meistararnir Haydn og Brahms hljóma á þessum tónleikum ásamt tveimur bandarískum tónskáldum. Sellókonsert Haydns er meistaralega saminn fyrir hljóðfærið og hér hljómar hann í flutningi Sigurgeirs Agnarssonar, sem leiðir sellódeild Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Akademíski hátíðarforleikurinn er glaðvært skemmtistykki sem Brahms samdi í þakkarskyni eftir að honum hafði verið veitt heiðursdoktorsnafnbót við þýskan háskóla, en verkinu lýkur einmitt með stúdentasöngnum góðkunna, Gaudeamus igitur.

Julia Perry er meðal þeirra tónskálda 20. aldar sem gleymdust í tímans rás þrátt fyrir að hafa samið sérlega áhugaverða tónlist. Hún lærði við Juilliard-tónlistarskólann um 1950 og vakti allmikla athygli á sinni tíð þrátt fyrir að tvennt hamlaði tónsmíðaferli hennar: hún var svört kona. Líflegur konsertforleikur hennar hefur hljómað víða síðustu ár og hvarvetna vakið mikla hrifningu.

Á tónleikunum hljómar einnig nýr konsert fyrir bassabásúnu eftir Kenneth Fuchs í flutningi Davids Bobroff, sem hefur verið bassabásúnuleikari SÍ svo áratugum skiptir. Fuchs hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir tónlist sína, meðal annars Grammy-verðlaun árið 2018. „Hann er meistari í því að semja fyrir hljómsveit,“ sagði BBC Music Magazine, „og tónlist hans ber vott um ríkt ímyndunarafl“.

Miðasala er hafin á tónleikana
Í ljósi hertra samkomutakmarkanna er miðaframboð á tónleikana takmarkað við 100 manns í hvert sóttvarnarhólf. Í það minnsta eitt autt sæti er á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Athugið að samkvæmt sóttvarnarlögum ber gestum skylda að vera með grímu á tónleikunum. Við biðjum tónleikagesti að gæta vel að sóttvarnarreglum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er á tónleikana. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.