EN

Bjarni Frímann Bjarnason

Aðstoðarhljómsveitarstjóri SÍ

Bjarni Frímann er fæddur í Reykjavík árið 1989. Hann hóf að leika á fiðlu fjögurra ára gamall og stundaði nám hjá Lilju Hjaltadóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur. Hann lauk prófi í lágfiðluleik frá Listaháskóla Íslands vorið 2009. Hann stundaði nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Fred Buttkewitz við Tónlistarháskólann Hanns Eisler í Berlín. Vorið 2012 vann hann fyrstu verðlaun í Hanns Eisler-keppninni í Berlín fyrir frumflutning á píanótilbrigðum eftir Viktor Orra Árnason. Sama ár hlaut hann undirleikaraverðlaunin í ljóðasöngkeppni sem kennd er við Paulu Salomon-Lindberg í sömu borg. 

Bjarni hefur komið fram víðsvegar um Evrópu, bæði sem strengja- og hljómborðsleikari. Hann stjórnar strengjasveitinni Skark, sem hefur á undanförnum árum staðið fyrir nýstárlegum flutningi nútímatónlistar, en hefur einnig stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur.

Bjarni Frímann Bjarnason tók við stöðu aðstoðarhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2018 og gegnir stöðunni til tveggja ára. Sem slíkur gegnir hann veigamiklu og fjölþættu hlutverki hjá hljómsveitinni, fyrst og fremst á stjórnendapallinum, en líka í öðru listrænu starfi hljómsveitarinnar.