EN

Kornilios Michailidis

Hljómsveitarstjóri

Gríski hljómsveitarstjórinn Kornilios Michailidis hefur verið ráðinn staðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands starfsárið 2021–22. 

Kornilios stundaði píanónám í París og í Bandaríkjunum og lauk meistaraprófi
í hljómsveitarstjórn við Sibeliusar-akademíuna í Helsinki. Hann var aðstoðarstjórnandi Finnsku útvarpshljómsveitarinnar 2016–17 og gegndi sömu stöðu við Fílharmóníusveit franska útvarpsins á árunum 2018–20. Hann hefur stjórnað fjölda hljómsveita og einnig við óperuhús, meðal annars Töfraflautu Mozarts við Teatro Real í Madrid, auk þess sem hann hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveitinni í Lahti, Grísku útvarpshljómsveitinni og hljómsveit Parísaróperunnar.

Kornilios Michailidis hefur einnig komið víða fram sem píanóleikari, meðal annars með Sinfóníuhljómsveitinni í Aþenu og ásamt fiðluleikaranum Sergej Krylov. Árið 2016 stofnaði hann Tónlistarhátíðina í Koufonisia, þar sem klassísk tónlist hljómar á einni af smæstu eyjum Grikklands.