EN
  • Motettukor_Hallgrimskirkju

Mótettukór Hallgrímskirkju

Mótettukór Hallgrímskirkju var stofnaður árið 1982 og hefur lengi verið meðal fremstu kóra á Íslandi. Verkefnalisti kórsins er langur og fjölskrúðugur og má þar finna fjölmargar óratóríur, passíur og sálumessur en einnig kórverk án undirleiks frá ýmsum tímum, auk þess sem kórinn hefur frumflutt fjölda íslenskra tónverka. Kórinn hefur haldið tónleika erlendis og tekið þátt í kórakeppnum, nú síðast í Lettlandi haustið 2018. Árið 2014 var Mótettukórinn útnefndur besti kórinn í keppninni Cançó Mediterrània á Spáni. Mótettukórinn hefur gefið út mikið af efni og hefur til að mynda fengið mikið lof erlendra gagnrýnenda fyrir flutning á sálumessu Maurice Duruflé og Passíu eftir Hafliða Hallgrímsson. Þá hafa komið út plötur hjá sænska útgáfufyrirtækinu BIS þar sem kórinn syngur verk Jóns Leifs með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Jólaplötur Mótettukórsins hafa notið mikilla vinsælda enda eru árlegir jólatónleikar kórsins ómissandi þáttur í tónlistarlífi Reykjavíkur á aðventunni. 

Meðal stærri verkefna undanfarin ár má geta flutnings kórsins á Passíu Hafliða Hallgrímssonar árið 2015. Sama ár flutti kórinn óratóríuna Salómon eftir Händel á Kirkjulistahátíð og var fyrir vikið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Árið 2016 flutti kórinn Te Deum eftir Charpentier og Messu í F-dúr eftir Bach á þrjátíu ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju. Mótettukórinn var í stóru hlutverki í frumflutningi á óratóríunni Mysterium op. 53 eftir Hafliða Hallgrímsson á Kirkjulistahátíð vorið 2019.