EN
  • Motettukor_Hallgrimskirkju

Mótettukór Hallgrímskirkju

 

Mótettukór Hallgrímskirkju hefur lengi verið meðal fremstu kóra Íslands. Verkefnalisti kórsins er langur og fjölskrúðugur. Þar má finna fjölmargar óratóríur, passíur og sálumessur en líka kórverk án undirleiks frá ýmsum tímum, auk þess sem kórinn hefur frumflutt fjölda íslenskra tónverka. Mótettukórinn hefur farið í margar tónleikaferðir og sungið í helstu dómkirkjum Evrópu, auk þess sem hann hefur tekið þátt í tónlistarhátíðum á borð við Listahátíðina í Bergen, Norrænu kirkjutónlistarhátíðina í Gautaborg og Wiener Festwochen.

Meðal stórverka sem Mótettukórinn hefur flutt á síðustu árum má nefna Matteusarpassíu, Jóhannesarpassíu, Jólaóratóríu og H-moll messu J.S. Bachs, sálumessur eftir Mozart, Duruflé og Fauré, óratóríurnar Elía og Paulus eftir Mendelssohn, Vesper eftir Rachmaninoff, Messu fyrir tvo kóra eftir Frank Martin og Þýska sálumessu eftir Johannes Brahms. Mótettukór Hallgrímskirkju hefur sungið inn á marga geisladiska og hefur fengið mikið lof erlendra gagnrýnenda fyrir diska með sálumessu Maurice Duruflé og Passíu eftir Hafliða Hallgrímsson. Kórinn mun einnig koma fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands 1. júní næstkomandi en þá verður flutt sinfónía nr. 2 (Upprisusinfónían) eftir Gustav Mahler.