EN

Osmo Vänskä

Hljómsveitarstjóri

Finnski hljómsveitarstjórinn Osmo Vänskä gegnir stöðu heiðursstjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Finninn Osmo Vänskä er aðalstjórnandi Minnesota-hljómsveitarinnar í Bandaríkjunum og heiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann er íslenskum tónlistarunnendum að góðu kunnur allt frá því að hann var aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar árin 1993–96 og aðalgestastjórnandi hennar 2014-19. Frá 2011 hefur hann komið árlega til þess að stjórna hljómsveitinni og auk þess stjórnaði hann Fílharmóníuhljómsveit Lundúna á tónleikum hennar í Eldborg árið 2014. Vänskä tók við stöðu aðalhljómsveitarstjóra við Fílharmóníusveitina í Seúl í Suður-Kóreu árið 2020.

Vänskä er klarínettuleikari og starfaði áður sem slíkur við fílharmóníusveitirnar í Turku og Helsinki. Hann lærði hljómsveitarstjórn við Sibeliusar-akademíuna og hlaut fyrstu verðlaun í hljómsveitarstjórakeppninni í Besançon í Frakklandi árið 1982. Í framhaldi af því vann hann sér sess sem afburða hljómsveitarstjóri, meðal annars með Sinfóníuhljómsveitinni í Lahti, þar sem hann var aðalstjórnandi í tvo áratugi, og BBC-hljómsveitinni í Skotlandi.

Vänskä hefur hlotið mikið lof fyrir starf sitt með Minnesota-hljómsveitinni en það hófst árið 2003. Hljómsveitin hljóðritaði meðal annars allar sinfóníur Beethovens undir hans stjórn og sagði gagnrýnandi New York Times um þann flutning að þar væri komin „hin fullkomna Beethoven-túlkun okkar tíma“. Þá hafa Vänskä og Minnesota-hljómsveitin einnig hljóðritað allar sinfóníur Sibeliusar á þremur diskum og hrepptu Grammy-verðlaunin fyrir einn þeirra. Þessar hljóðritanir koma allar út á vegum sænska forlagsins BIS en það hefur einnig gefið út tvo diska með verkum eftir Jón Leifs í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Vänskä.

Osmo Vänskä er fastagestur hjá fremstu hljómsveitum austan hafs og vestan. Má þar nefna fílharmóníusveitirnar í New York og Los Angeles, Cleveland- og Fíladelfíu-hljómsveitirnar, sinfóníuhljómsveitirnar í Boston, Chicago og San Francisco, Berlínarfílharmóníuna, helstu hljómsveitir Lundúnaborgar, Fílharmóníusveit Vínarborgar, Concertgebouw-hljómsveitina í Amsterdam og Gewandhaushljómsveitina í Leipzig. Fyrr á þessu ári kom á markað hljóðritun Minnesota-hljómsveitarinnar á Upprisusinfóníu Mahlers, en heildarútgáfa á sinfóníum tónskáldsins hófst árið 2017 og hefur hlotið frábæra dóma gagnrýnenda.