EN

70 ára afmælistónleikar

Mahler og Sibelius

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
5. mar. 2020 » 19:30 - 21:45 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr.

Í mars 2020 verða 70 ár liðin frá því að Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt sína fyrstu tónleika. Af því tilefni verður efnt til hátíðartónleika þar sem hljóma stórvirki eftir Sibelius og Mahler, en einnig sjaldheyrt verk eftir Pál Ísólfsson sem var frumkvöðull í íslensku tónlistarlífi og einn helsti hvatamaður þess að Sinfóníuhljómsveitin var stofnuð á sínum tíma. Úr myndabók Jónasar Hallgrímssonar er sérlega áheyrileg og skemmtileg leikhústónlist, samin við leikgerð sem Halldór Laxness gerði úr sögum og ljóðum Jónasar á hundrað ára ártíð listaskáldsins góða árið 1945.

Fáir kunnu betur listina að semja fyrir stóra sinfóníuhljómsveit en Gustav Mahler. Fyrsta sinfónía hans var metnaðarfull frumraun og upphafstaktar hennar eru að mati tónlistarrýnis The Guardian „eitt innblásnasta augnablik í gjörvallri sinfónískri tónlist 19. aldar“. Í verkinu hljómar einnig meðal annars glaðvær sveitatónlist og sorgarmars sem byggður er á laginu Meistari Jakob. Lokataktarnir eru með því stórfenglegasta sem gert hefur verið í sinfónískri tónlist fyrr og síðar.

Hinn ítalski Augustin Hadelich hefur á síðustu árum skipað sér í fremstu röð fiðluleikara á heimsvísu. Tímaritið Musical America útnefndi hann hljóðfæraleikara ársins 2018 en skömmu áður hlaut hann sín fyrstu Grammy-verðlaun. Sumarið 2018 kom hann líka í fyrsta sinn fram á tónlistarhátíðinni víðfrægu í Salzburg og lék þar einmitt konsert Sibeliusar. Augustin Hadelich leikur á fiðlu sem Giuseppe Guarneri del Gesù smíðaði árið 1744 („Leduc, ex Szeryng“), sem ónefndur velgjörðarmaður hefur falið honum til yfirráða gegnum Tarisio-stofnunina.

Um tónsprotann heldur hin finnska Eva Ollikainen, sem vakti feykilega athygli fyrir glæsilega tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í febrúar 2019. Eva hefur verið ráðin í stöðu aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands og tekur við stöðunni í byrjun starfsársins 2020/21.

Ljósmyndasýning úr 70 ára sögu Sinfóníuhljómsveitar Íslands í tilefni af afmælinu stendur gestum opin á 1. hæð Hörpu.

Tónleikarnir verða teknir upp í mynd og streymt beint á vef hljómsveitarinnar ásamt því að þeir eru hljóðritaðir og sendir út í beinni útsendingu á Rás 1.

Sækja tónleikaskrá