EN

Anna Meredith: HandsFree

Breska tónskáldið Anna Meredith (f. 1978) hefur vakið mikla athygli undanfarin ár bæði sem tónskáld og flytjandi. Verk hennar spanna ýmsar stíltegundir; þau eru blanda af klassískri samtímatónlist, popp-, teknó- og sveim- (eða ambient-) tónlist. Hún var um skeið staðartónskáld BBC-sinfóníuhljómsveitarinnar í Skotlandi og kemur oft fram í útvarpi og sjónvarpi. Nýjasta verk sitt, Five Telegrams, samdi hún fyrir BBC Proms-tónlistarhátíðina í samstarfi við Listahátíðina í Edinborg og var það samið til að minnast þess að öld er liðin frá lokum heimsstyrjaldarinnar fyrri. Five Telegrams var frumflutt af BBC-sinfóníuhljómsveitinni, Ungsveit Proms-hátíðarinnar og Æskukór Bretlands í Royal Albert Hall við feykigóðar viðtökur. Meðal annarra verka hennar má nefna konsert fyrir „beatboxer“ (eða taktkjaft eins og það hefur verið kallað á íslensku) og hljómsveit, auk þess sem hún útsetti lög Sigur Rósar fyrir tónleika á Reykjavíkurhátíð Fílharmóníusveitarinnar í Los Angeles vorið 2017.

Meredith samdi HandsFree ásamt danshöfundinum David Ogle og var verkið frumflutt af Þjóðarungsveit Bretlands á Proms-tónlistarhátíðinni í Royal Albert Hall árið 2012. Síðan hefur það verið flutt af ungsveitum víða um heim og hvarvetna vakið mikla hrifningu. Í HandsFree er ekki notast við hljóðfæri, heldur eru hljóð mynduð eftir öðrum leiðum auk þess sem líkamshreyfingar gegna veikamiklu hlutverki.