EN

Benjamin Britten: Fiðlukonsert

Benjamin Britten (1913–1976) fæddist í sjávarþorpinu Lowestoft í Suffolk-héraði á Austur-Englandi. Tónlistarhæfileikar hans komu snemma í ljós og naut hann fyrstu leiðsagnar í píanóleik og nótnalestri hjá móður sinni. Sjö ára gamall hóf hann reglulegt píanónám og þremur árum síðar bættist víólan við tónlistarnámið. Sautján ára gamall vann Britten keppni um styrk til náms við Konunglega tónlistarháskólann í London (Royal College of Music). Þar dvaldi hann frá 1930–33 og lærði tónsmíðar hjá John Ireland og píanóleik hjá Arthur Benjamin. Á þessum árum vann hann til nokkurra verðlauna fyrir tónsmíðar sínar og fyrstu verk hans til að vekja verulega athygli urðu einnig til á skólaárunum í Royal College — Sinfonietta op. 1 og sálmatilbrigðin A boy was born. En Britten notaði einnig tímann í London til að sækja tónleika í því skyni að kynnast tónlist Stravinskíjs og Shostakovitsj en sér í lagi Mahlers. Að loknu námi í London stundaði hann um skeið framhaldsnám hjá Alban Berg og Schönberg í Vínarborg.

Þann 19. apríl 1936 var Britten viðstaddur frumflutning Fiðlukonserts Albans Berg, sem ber undirtiltilinn „í minningu engils“, á alþjóðaþingi nútímatónskálda í Barcelona. Hafði verkið djúp áhrif á hann og kveikti hjá honum hugmynd að eigin fiðlukonserti sem eins konar sálumessu. Sjálfur var hann þar í því skyni að frumflytja Svítu sína op. 6 fyrir fiðlu og píanó ásamt fiðluleikaranum Antonio Brosa.

Næstu ár voru Britten erfið. Fann hann fyrir aukinni andúð heima fyrir vegna stjórnmálaskoðana sinna og samkynhneigð. Í maí árið 1939 ákvað hann loks að flýja land og flytja til Bandaríkjanna ásamt vini sínum, tenórsöngvaranum Peter Pears, sem síðar varð lífsförunautur hans. Í farteskinu var ófullgerður fiðlukonsert sem hann lauk við í Quebec um sumarið og hljómsveitarútfærslunni í september, þá kominn til New York þar sem hann og Pears höfðu sest að.

Fiðlukonsertinn var síðan frumfluttur af Antonio Brosa og Fílharmóníuhljómsveitinni í New York undir stjórn Johns Barbirolli 28. mars 1940. Konsertinn tileinkaði Britten skólabróður sínum frá árunum í  Royal College of Music, Henry Boys. Britten endurskoðaði verkið þrisvar sinnum, 1950, 1954 og 1965. Breytingarnar fólust að hluta í afturköllun á miklum breytingum sem Brosa hafði gert á einleiksparti konsertsins en einnig lagfæringum á lokaþættinum.

Britten er í hópi helstu tónskálda 20. aldarinnar. Meðal þekktustu og mest fluttu verka hans eru The Young Person's Guide to the Orchestra, War Requiem og óperan Peter Grimes. Yfirburðir Brittens meðal óperutónskálda síðari hluti aldarinnar eru miklir og hafa í það minnsta fimm óperur hans öðlast fastan sess á fastri verkaskrá óperuhúsa. Eru þær næst á eftir verkum Richards Strauss mest fluttu óperur tónskálda liðinnar aldar. Meðal annarra verka Brittens eru hljómsveitarverk, kórverk, einsöngsverk, einleiksverk, strengjakvartettar og önnur kammertónlist.