EN

Claude Debussy: Petite suite

Lítil svíta franska tónskáldsins Claude Debussy (1862-1918) er í fjórum köflum, tveir þeir fyrstu bera heiti tveggja ljóða franska skáldsins Paul Verlaine, sem finna má í  ljóðabókinni Fêtes galantes sem kom út 1869. Impressjónistinn Debussy var hugfanginn af ljóðum symbólistans Verlaine og tónsetti mörg þeirra fyrir rödd og píanó, en í Litlu svítunni frá 1889 má segja að ljóðin tvö, Í báti og Fylgdarlið séu hljóðskreytt.

Í fyrsta kaflanum erum við um borð í báti sem vaggar blíðlega í rökkrinu og sneiðir fimlega hjá hringiðum og straumum. Debussy lætur einkar vel að ná fram áhrifum vatns í tónlist sinni, hvort sem það er létt skvamp og rólegt gjálfur eins og hér eða ólgandi og óútreiknanlegt hafið sem birtist í sinfónísku tónsmíðinni La mer, sem samin var einum sextán árum síðar.

Í ljóðinu sem annar kafli svítunnar dregur heiti sitt af fylgjumst við með ferðum glæsilegrar hefðarfrúar og fylgdarliðs hennar; einkennisklæddum litlum apa og mennskum sendisveini. Það er gustur á þeim og töluverður leikur í tónlistinni, jafnvel lúmskur undirtónn.

Ljóðabók Verlaines, Fêtes galantes, dregur nafn sitt af málverkum franska 18. aldar málarans Watteau, sem sýna prúðbúið hefðarfólk við leik og skemmtan, jafnvel dufl og daður, úti í fagurri og friðsælli náttúru. Þótt síðari kaflarnir tveir í Litlu svítu Debussys séu ekki tengdir ákveðnum ljóðum úr bókinni, eiga form þeirra, Menúett og Ballett, sér rætur í franskri tónlist frá 18. öld, kaflarnir allir bera með sér fortíðarþrá í bland við dulúð og dökka undirtóna, sem einkenndi ljóðabókina í heild. Líkt og í torræðum ljóðunum er í tónlistinni ýmislegt gefið í skyn fremur en staðhæft. Debussy og útgefandi hans Jacques Durand frumfluttu svítuna í París 1889 og léku þá fjórhent á píanó, en þannig var frumútgáfa verksins. Hljómsveitargerð svítunnar kom til sögunnar töluvert síðar, hana gerði Henri Büsser árið 1907.